Innlent

Flestir vilja Katrínu Jakobs sem forsætisráðherra

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Hátt í helmingur íslenskra kvenna vill sjá Katrínu sem forsætisráðherra á móti ríflega fjórðungi karla.
Hátt í helmingur íslenskra kvenna vill sjá Katrínu sem forsætisráðherra á móti ríflega fjórðungi karla. Vísir
Flestir myndu vilja sjá Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, í embætti forsætisráðherra, samkvæmt nýrri könnun Þjóðarpúls Gallup. Næst flestir nefndu Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Ríflega fjórir af hverjum tíu sem tóku þátt tóku ekki afstöðu.

Af þeim sem tóku afstöðu nefndu 37 prósent Katrínu Jakobsdóttur. Næst flestir nefndu Bjarna Benediktsson, eða 20 prósent.  Þar á eftir kemur Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, með sex prósent, og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra fylgir þar á eftir með 5 prósent.

Hátt í helmingur íslenskra kvenna vill sjá Katrínu sem forsætisráðherra á móti ríflega fjórðungi karla, og að sama skapi vilja fleiri karlar en konur sjá Bjarna sem forsætisráðherra. Katrín er vinsælli á meðal yngra fólks en eldra og á meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins en landsbyggðarinnar, að því er segir í könnuninni. Bjarni á hins vegar meira upp á pallborðið hjá fólki fertugu og eldra, en yngra fólki.

Fólk með háskólamenntun er líklegra en fólk með minni menntun að baki til að nefna Katrínu, en hið gagnstæða á við um Bjarna. Loks eru stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar mun líklegri en þeir sem styðja hana ekki til að nefna Bjarna, og Katrín og Bjarni eru bæði vinsælli hjá þeim sem kysu þeirra flokka en aðra ef kosið yrði til Alþingis í dag.

Könnunin var gerð rafrænt dagana 7. til 13. apríl sl. Heildarúrtaksstærð var 1.434 og þátttökuhlutfall var 59,2 prósent. Einstaklingar voru handahófsvaldir úr viðhorfahópi Gallup.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×