Innlent

Flugvallarstarfsmenn með hálfa milljón á mánuði

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Þorsteinn Viglundsson
Þorsteinn Viglundsson
Deila flugvallarstarfsmanna og Isavia er í hnút. Þriðja vinnustöðvun flugvallarstarfsmanna var í morgun.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir enga efnislega innistæðu fyrir kröfugerð flugvallarstarfsmanna. Þeir krefjist mun meiri hækkunar en samið var um í desember á almenna markaðnum.

„Það kemur ekki til greina af okkar hálfu að hverfa frá þeirri línu sem var mörkuð þá,“ segir hann.

Þorsteinn segir flugvallarstarfsmenn að meðaltali með um hálfa milljón á mánuði. Þeir krefjist 25,6 prósenta hækkunar á mánaðarlaunum, sem myndi þýða 120 til 130 þúsund króna hækkun á mánaðarlaunum á samningstímanum.

„Það er ekkert í launaþróun þessa hóps á undanförnum misserum sem kallar á leiðréttingu. Kröfur þeirra eru óásættanlegar.“

Kristján Jóhannsson
Kristján Jóhannsson, formaður Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, segir að meðallaunin á bilinu 450-480 þúsund, með yfirvinnu, vaktaálagi og bílastyrkjum. Flugvallastarfsmenn fari fram á launaflokkahækkanir og prósentuhækkanir á launatöflu.

„Við höfum látið reikna út að heildarkostnaður Isavia yrði 18 prósent á samningstímanum en við höfum rætt um að gera samning til 29 mánaða,“ segir hann. Það jafngildi 5 til 6 prósenta hækkun mánaðarlauna á tæplega tíu mánaða fresti út samningstímann. 

Þorsteinn segir flugvallarstarfsmenn með góð laun miðað við menntun. Öryggisverðir þurfi til dæmis bara að hafa lokið tveggja vikna námskeiði hjá Isavia.

Þá hafi öryggisverðir á flugvöllum fengið 18 prósenta hækkun 2010 á sama tíma og aðrir starfsmenn hafi fengið 11 prósent. Kristján segir að það ár hafi tekist góðir samningar.

Flugvallarstarfsmenn hafa boðað til ótímabundins verkfalls frá og með næsta miðvikudegi, hafi ekki samist fyrir þann tíma. Koma verði í ljós hvort stjórnvöld beiti lögbanni. „Ef ef þeir setja lög frestar það bara aðgerðum,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×