Innlent

Flytur námið norður þvert á mat nefndar

Sveinn Arnarsson skrifar
Nýnemar í lögreglunámi geta lært til lögreglumanns í fjarnámi og þurfa því ekki að flytjast búferlum.
Nýnemar í lögreglunámi geta lært til lögreglumanns í fjarnámi og þurfa því ekki að flytjast búferlum.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur ákveðið að flytja kennslu og rannsóknarstarfsemi á sviði lögreglufræða til Háskólans á Akureyri. Háskóli Íslands var talinn hæfastur til að taka að sér námið samkvæmt matsnefnd Ríkiskaupa sem annaðist ferlið.

Lögregluskóli ríkisins hefur verið lagður niður og mun nám í lögreglufræðum verða fært upp á háskólastig.

Illugi Gunnarsson
Ákveðið var að fela Ríkiskaupum að finna framkvæmdaaðila á háskólastigi sem gæti tekið við lögreglunáminu eftir að ákveðið var að færa það á háskólastig. Sett var á laggirnar matsnefnd og skiluðu þrír umsækjendur tilkynningu um þátttöku. Háskóli Íslands skoraði hæst hjá matsnefnd, Háskólinn á Akureyri kom annar og Háskólinn í Reykjavík var þriðji. „Að mínu mati uppfyllti Háskólinn á Akureyri vel þær kröfur sem gerðar eru um gæði náms og aðbúnað til lögreglumenntunar. Einnig tel ég aðstæður við Háskólann á Akureyri til þess fallnar að gera nemendum af landinu öllu kleift að leggja stund á námið,“ segir Illugi.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, segir það fagnaðarefni að lögreglunáminu verði fundinn staður á Akureyri. „Við sendum inn metnaðarfulla þátttökuyfirlýsingu og erum í stakk búin að hefja innritun nú þegar. Við vitum að það er mikill áhugi fyrir náminu,“ segir Eyjólfur. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×