Innlent

FME sendi mál fyrrverandi stjórnenda til sérstaks saksóknara

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Fjármálaeftirlitið sendi í dag mál um meinta allsherjarmarkaðsmisnotkun fyrrverandi stjórnenda Landsbankans til sérstaks saksóknara. Grunur leikur á að stjórnendur bankans hafi beitt markaðinn langvarandi blekkingum.

Fyrir um ári sendi Fjármálaeftirlitið mál um meinta allsherjarmarkaðsmisnotkun Kaupþings til sérstaks saksóknara. Fjármálaeftirlitið hefur frá þeim tíma rannsakað meinta allsherjarmarkaðsmisnotkun hinna viðskiptabankanna, Glitnis og Landsbankans.

Grunur leikur á að bankarnir hafi með kerfisbundnum hætti reynt að hafa áhrif á eigið hlutabréfaverð og þannig sent röng skilaboð til markaðarins um raunvirði bréfanna. Lögum samkvæmt máttu bankarnir ekki eiga meira en 10% í sjálfum sér. Bankarnir keyptu því bréfin á veltubók og seldu þau síðan til vildar-viðskiptavina gegn lánum frá sjálfum sér, sem voru oftast með veðum í bréfunum sjálfum.

Ljóst er að upphæðirnar í þessum viðskiptum voru langhæstar hjá Kaupþingi, enda bankinn stærstur. Landsbankinn mun fara þar á eftir en Fjármálaeftirlitið sendi nú í dag mál um meinta allsherjarmarkaðsmisnotkun bankans til sérstaks saksóknara.

Grunur leikur á að stjórnendur bankans hafi beitt markaðinn blekkingum í allt að fimm ár. Ábyrðin er talin liggja hjá stjórnendum bankans sem mótuðu stefnuna en viðurlög við markaðsmisnotkun geta varðað allt að sex ára fangelsi.

Heimildir fréttastofu herma að meðal þeirra mála sem tengist rannsókn Fjármálaeftirlitsins sé m.a. viðskipti Imons, félags í eigu Magnúsar Ármanns, og Landsbankans um kaup á 4% hlut í bankanum rétt fyrir hrun.

Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Hann sagði þó að eftir að fjölgað hefði verið í rannsóknarteymi eftirlitsins væri nú von á að fleiri stór mál yrðu send til sérstaks saksóknara á næstunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×