Innlent

Formaður Evrópusamtakanna bjartsýnn þrátt fyrir hægagang

Andrés Pétursson.
Andrés Pétursson.
„Auðvitað hefðum við viljað að ríkisstjórnin héldi áfram með þetta eins og lá fyrir í stjórnarsáttmálanum, en við skiljum ákvörðunina vel," segir Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, um samkomulag ríkisstjórnarinnar að hægja verulega á samningaviðræðum ríkisins um aðild að Evrópusambandinu.

Nú liggur fyrir að fjórir kaflar verða ekki opnaðir á þessu kjörtímabili, það eru að auki þeir mikilvægustu, þessir sem fjalla um landbúnað og sjávarútveg og fjárfestingum þeim tengdum.

En óttist þið að málið verði svæft í fórum nýrrar ríkisstjórnar?

„Við erum ekkert hræddir við það," svarar Andrés. „Dómsdagsspár hinna svartsýnustu um fall ESB og evrunnar hafa eki ræst, heldur þvert á móti hefur ESB verið að klóra sig út úr erfiðleikunum. Og þá sitjum við íslendingarnir eftir í gjaldeyrishöftum," segir Andrés sem telur að Ísland gæti orðið eftir í gjaldeyrishöftum á meðan ESB nær sér aftur á strik í efnahagsmálum.

„Við erum nokkuð bjartsýn á næsta kjörtímabil," segir Andrés spurður hvort hann óttist ekki ríkisstjórn sem beitir sér gegn aðildarviðræðunum. „Þeir flokkar sem styðja áframhaldandi viðræður munu ná slíkum árangri í næstu kosningum að það verður haldið áfram með málið. Enda miklir hagsmunir í húfi," segir Andrés sem bætir við: „Og af hverju ætti nokkur maður að loka fyrir þennan möguleika?"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×