Innlent

Forseti ASÍ: Við viljum sjá vor, vor hins vinnandi manns

Gylfi Arnbjörnsson.
Gylfi Arnbjörnsson.
„Þetta er sá frostavetur sem íslenskt launafólk hefur gengið í gegnum og þetta er sá frostavetur sem við viljum sjá ljúka – við viljum sjá vor, vor hins vinnandi manns,“ sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í ræðu sinni á verkalýðsdeginum á Akureyri.

Gylfi sagði að öflugt velferðarsamfélag yrði aðeins reist á trúverðugum og varanlegum efnahagslegum stöðugleika og uppbyggingu.

Svo bætti hann við:

„Þann stöðugleika og trúverðugleika sem okkur vantar svo sárlega nú, höfum við einstætt tækifæri til að ná með því að ljúka viðræðum okkar við Evrópusambandið um aðild, þar sem við stöndum fast á samningsmarkmiðum okkar í sjávarútvegi, landbúnaði og byggðamálum og stefnum að upptöku evru í framhaldi af því.“

Hann sagði þetta vera  stórar, og fyrir marga, þungbærar ákvarðanir. Gylfi sagðist jafnframt gera sér grein fyrir að skiptar skoðanir væru um málið í ASÍ.

„En aðal atriðið er að þjóðin sjálf fái að taka afstöðu til þeirra í þjóðaatkvæðagreiðslu byggt á hagsmunamati á skýrri samningsniðurstöðu en ekki afstöðu þingmanna á grundvelli krafna sérhagsmunahópa. Höfum það hugfast, að til að móta nýtt samfélag sem verði reist á öðrum og traustari forsendum en áður giltu, verðum við að hafa kjark til þess að breyta til og tíminn til slíkra ákvarðana er nú, en ekki seinna, því það kann að verða of seint! “ sagði hann svo.

Þá vék Gylfi einnig orðum sínum að Samtökum Atvinnulífsins líkt og varaforseti ASÍ gerði í ræðu sinni á Austurvelli.

„Ljóst er að til þess að rjúfa þessa kyrrstöðu og gíslatöku LÍÚ og SA þarf verkalýðshreyfingin að sameinast og bregðast hart við og það gerum við einungis með því að leita til félagsmanna okkar um heimild til verkfalla.

Til þess erum við treg því samfélagslegur kostnaður verkfalla er mikill og mikil ábyrgð sem fylgir notkun þeirra. Það er hins vegar búið að stilla okkur upp við vegg og við eigum engra annara kosta völ en að grípa til verkfallsvopnssins.

Ekki einungis er langlundargeð okkar gagnvart atvinnurekendum þrotið, það er búið að misbjóða íslensku launafólki herfilega með því að taka kjarabætur þess í gíslingu við þessar aðstæður.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×