Innlent

Forseti Hells Angels: Ummæli Ögmundar ólíðandi

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Einar Marteinsson, forseti Hells Angels á Íslandi
Einar Marteinsson, forseti Hells Angels á Íslandi mynd/Valgarður
Forseti Hells Angels á Íslandi segir það ólíðandi að ráðherra dómsmála leyfi sér að kalla samtökin opinberlega glæpasamtök. Hann segir lögreglu landsins mjög ótrúverðuga.

Vítisenglar stefndu á fimmtudag Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra, Haraldi Johannessyni ríkislögreglustjóra og íslenska ríkinu fyrir meiðyrði, vegna ummæla þess efnis að samtökin séu glæpasamtök og þannig tengd við skipulagða glæpastarfsemi.

Ögmundur sagði í viðtali við fréttastofu á föstudag að hann standi við orð sín og muni svara fyrir þau hvar sem er og hvenær sem er.

Einar Marteinsson, forseti Hells Angels á Íslandi segir þetta ólíðandi.

„Við teljum það ólíðandi að yfirmaður dómsmála á Íslandi og yfirmaður lögreglunnar láti svona ummæli frá sér fara og þurfi ekki að sæta ábyrgð,“ segir Einar.

En er þetta ekki gert út frá mati lögreglunnar á samtökunum? „Hún er byggð á röngum forsendum og lögreglan byggir mat sitt á röngum forsendum. Hún er byggð á blaðagreinum erlendis frá og það eru engar sannanir fyrir einu eða neinu,“ segir Einar.

Fram kemur i skýrslu ríkislögreglustjóra frá árinu 2008 að stór vélhjólagengi á borð við Hells Angels séu alþjóðlegt vandamál sem haldi uppi skipulagðri glæpastarfsemi.

„Það er bara eitthvað sem lögreglan segir,“ segir Einar. Og er ekki hægt að taka orð hennar trúanleg? „Lögreglan er mjög ótrúverðug.“

Meðlimir í Hells Angels á Íslandi, eru þeir í daglegri vinnu? „Já“

Geturðu nefnt mér einhver störf sem þeir vinna? „Ég er járnsmiður og vélstjóri og er sjálfur að reyna að opna tattú-stofu. Það eru smiðir, fiskverkunarmenn og svo framvegis,“ segir Einar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×