Skoðun

Forseti Íslands og óhreinu börnin hennar Evu

Ingibjörg Kristjánsdóttir skrifar
Grein Tinnu Brynjólfsdóttur á Vísi í morgun þar sem hún segir frá höfnun forseta Íslands, Guðna Th Jóhannessyni á beiðni sinni um viðtal er athyglisverð.

Þetta eru í raun afleit viðbrögð hjá Guðna Th og ég er agndofa yfir þessu svari. Hann hefur að mér sýnist, lagt sig fram um að opna Bessastaði fyrir sem flestum. Hann hefur meðal annars opnað dyr sínar fyrir flóttamönnum, sem er gott og hann hefur verið iðinn við að tala fyrir málstaði minnihlutahópa. Að sjálfsögðu hafa allir þessir fundir verið í fylgd fjölmiðla og vel kynntir á fésbókarsíðu hans og í fjölmiðlum.

Hér fær hann einkaskilaboð frá ráðþrota manneskju sem biður hann um fund til þess að ræða háalvarlegt mál sem eru mannréttindabrot framin af íslenska ríkinu á þegnum sínum. Hvað gerir hann?…jú hann einfaldlega hafnar því að hitta hana. Hann veit í raun ekki hvert erindið er í smáatriðum, og hann virðist ekki hafa áhuga á að komast að því. Það örlar ekki á neinni forvitni að vita meira um þessa þjóð sem hann er í forsvari fyrir. Honum er í lófa lagið að meðhöndla erindi Tinnu eins og honum sýnist eftir að hann hefur kynnt sér málið.

Getur það verið að Guðni sjái sér ekki fært að hitta Tinnu af því að hún tilheyrir þeim hópi fólks sem þjóðin hefur valið að hafna….þessum óhreinu börnum hennar Evu sem hafa þurft að axla ábyrgð á alþjóðlegu fjármálahruni?

Ég hvet Guðna Th til að sjá sóma sinn í að biðjast afsökunar á þessum vanhugsuðu viðbrögðum við beiðni Tinnu og taka erindi hennar jákvætt. Hún hefur sama rétt á að hitta forseta sinn eins og aðrir þegnar þessa þjóðfélags og það hlýtur að vera skylda hans sem forseta að vinna að bættu samfélagi sem hefur víðsýni og mannleg sjónarmið að leiðarljósi.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×