Innlent

Fóturinn fýkur loksins af ... sennilega

Jakob Bjarnar skrifar
Í 34 ár hefur Konráð búið við ólýsanlegan sársauka eftir slysaskot.
Í 34 ár hefur Konráð búið við ólýsanlegan sársauka eftir slysaskot. mynd/pjetur
Konráð Ragnarsson, ljósmyndari og leikari, hefur falið mikið fótamein nú í 34 ár – Konráð hefur gefist upp og fóturinn verður fjarlægður. Konráð lítur á þetta sem ósigur því hann hefur þrjóskast við í 34 ár og mátt upplifa gríðarlegan sársauka fyrir vikið.

Skaut sig í fótinn

„Ég hafði verið á rjúpnaveiðum deginum áður. Gekk ekkert frá byssunni þegar ég koma heim, var mjög þreyttur og maður var kærulausari á þeim tíma en nú er. Ég setti hana bara inní skáp heima hjá mér. Daginn eftir tók ég eftir því að ég hafði ekki gengið frá henni, tók í hana og heyrði bara plamm! Og ég fann þennan svakalega sársauka og gerði mér þá grein fyrir því að ég hefði líklega skotið mig.“

Skotið fór beint í legg Konráðs og löppin dreifðist að verulegu leyti um allt herbergið, að sögn Konráðs. Hún hékk saman á skinninu.

„Jájá, af svona stuttu færi þá rífur þetta vel í. En sem betur fer voru bræður mínir heima, þetta var í Hafnarfirðinum, og fyrst var hringt í lögregluna. Hún trúði þessu ekki, kom fyrst og þá var hringt í sjúkrabíl. Þá var mér næstum búið að blæða út.“

Rjúpnaskot voru í haglabyssunni, ef þau hefðu verið öflugri hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum, en það hafði sitt að að segja hversu færið var stutt.

Með meðvitund allan tímann

Konráð gerði sér enga grein fyrir því hversu mikið helvíti, eins og hann orðar það, ætti eftir að taka við. „Ég hélt að ég myndi liggja í nokkra daga en ég lá í sex mánuði. Hún fór í sundur löppin, hékk á skinninu öðrum megin. Man ekki eftir því að hafa séð hana, bara einhverjar blóðgusur úr löppinni. Nei, það leið ekki yfir mig, var í augnablik sem það var alveg að líða yfir mig, svo náði ég einhvern veginn að komast yfir það. Þegar skotið reið af sem sársaukinn var sem mestur. Þá munaði örlitlu að maður liði út af en náði einhvern veginn að harka það af mér. Og svo datt maður á gólfið. Og emjaði þar.“

Sinin braut sér leið út

Í raun er merkilegt að heyra hversu svalur Konráð er þegar hann talar um þetta. Blaðamanni er orðið órótt bara við tilhugsunina en Konráð talar um atvikið og meiðslin, tjahh, nánast eins og hvert annað hundsbit.

„Á sínum tíma var þetta helvíti ljótt. Málið var að sinin framan á löppinni fór alveg út. Stór hvít sin og hún eiginlega reif þetta upp, lá 2 sentímetra fyrir utan húðina. Það var ekkert kjöt á sjálfri sininni. Þá var þetta mjög slæmt, tók mjög langan tíma að gróa. Eftir um tíu ár, þá loksins myndaðist einhver örþunn húð þarna en nú hefur það opnast aftur.“

Erfiðar aðgerðir

Konráð hefur aldrei beðið þessa bætur. „Ég hef átt í þessu alla tíð. Þessu var lokað þannig að það var tekin húð af lærinu á mér og sett þunn húð yfir. Það dugði ekkert. Og það endaði með því að ég fór í risastóra aðgerð, stórt kjötstykki tekið úr hinni löppinni, flakað upp stórt kjötstykki og lagt niður aftur og látið liggja ... síðan er annar endinn festur við hina löppina. Svo þarf að vera í nokkrar vikur þar til löppin sem á að taka við er komin með blóðrás í flipann og hægt að slíta af hinni löppinni. Sett teygja yfir til að sjá hvort myndi blána upp. Það tókst. Kom tímabil sem var sæmilegt. En, svo bara ... var hún svo mikið skemmd að ... mikið slit í liðnum að hann er eiginlega ónýtur og getur farið hvenær sem er núna. Þetta olli mér alltaf miklum sársauka. Af því að það vantaði svo mikið, skaut í sundur svo mikið af taugum, að hún er hálf lömuð, get ekki lyft tánum neitt, alltaf að reka þær í og get ekki beygt ökklann nema líðið. Sést reyndar ekki þegar ég geng.“

Faldi meinið

Konráð hefur fengist talsvert við að leika í gegnum tíðina, bæði á sviði, í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Og hann faldi alltaf meiðsl sín. „Ef ég hef verið að leika og hef þurft að hlaupa, þá hef ég sagt að ég hafi tognað deginum áður. Ég faldi þetta. Talið þetta minnka möguleika mína. Tvímælalaust. Ef ég var að sækja um vinnu minntist ég ekki á þetta einu orði. Að ég væri eitthvað fatlaður. Til að það truflaði ekki mína möguleika.“

Þetta er orðinn langur tími og Konráð segir erfitt að lýsa því hvernig hafi verið að búa við þetta mein. Hann hefur þurft að dæla í sig verkjalyfjum til að þrauka, ekki síst ef hann hefur þurft að taka eitthvað á í vinnu. „Svo maður sé ekki vælandi allan tímann.“ Hann hefur farið í þrjár erfiðar aðgerðir og er búinn að fá sig fullsaddan af spítalavist.

Fóturinn hefur aldrei orðið góður eftir voðaskotið.mynd/pjetur
Fordómar gagnvart fötluðum

„Ég er svona kominn á það stig að ég ræð ekki lengur við þetta. Ég hef tvisvar fengið mjög alvarlegar sýkingar í löppina og það er lífhættulegt. Svo er þetta komið á nýjan stað, sár og þar er þrisvar sinnum meiri sársauki. Misjöfn tilfinningin í löppinni. Sumstaðar er hún hálf dofin.“

Konráð segir að margir hafi sagt honum að eina vitið sé að láta fjarlægja löppina, lærðir og leikir. „Það er alltaf verið að benda manni á Össur. Af hverju talarðu ekki við þá í Össur? Ég bara þoli svo illa ... sko, hef verið með fötluðu fólki vegna minna veikinda, brotnað oftar en ég man. Og, fordómarnir gagnvart fötluðum eru ótrúlegir. Ég hef reynt að forðast það með öllum ráðum að lenda í þeim flokki.“

Hefur þrjóskast við

Og það eru ekki síst fordómar eða öllu heldur þrjóska í eigin fari sem Konráð hefur mátt eiga við. „Það er svo ríkt í mér að vera með allt þó það sé skemmt. Hefur svo mikið sálrænt gildi fyrir mig. Fólk er að segja; blessaður það sér þetta enginn. En, þú ferð í sund, sólarströnd, þá sést þetta. Meira en segja það að láta taka fótinn. Öðru vísi þó áverkarnir sjáist. Eins og maður hafi slasast tímabundið.

Konráð segir þetta geta tekið á sig kostulegar myndir. Hann bjó um tíma úti í Svíþjóð, þá var sárið ekki eins áberandi og núna og hann fór í pott en þá forðuðu sér allir úr pottinum – líkt og hann væri holdsveikur. Sjálfur var hann þá mikið til hættur að taka eftir meininu.

„Með tíð og tíma hættir maður að pæla í þessu, orðinn lífsmáti og hluti af lífinu. Hættir að taka eftir þessu. Ert ekkert að pæla í hvað aðrir eru að hugsa nema einhver minnist á þetta við mann. Sársaukinn og löppin eins og hún er. Ég hugsaði alltaf að þetta væri það sem ég borgaði fyrir að halda löppinni.“

Getur ekki sagt það

Konráð segir að líkast til verði þetta ekki lengur í hans höndum, ákvörðunin sem verður vart umflúin öllu lengur; að fóturinn fari. En, hann getur ekki sagt það. Það er of mikill ósigur. „Ég finn að ég er að renna út á tíma. Ég fæ sennilega engu um þetta ráðið. Ég er með blöðruhálskrabbamein, hef verið með það í fimm ár og hef verið að fara í geislameðferð vegna þess. Það hefur verið mallandi þarna. Og svo er það þetta með fótinn...“

Læknar hafa viljað fjarlægja hann og nú er stundin runnin upp, Konráð verður að viðurkenna fyrir sjálfum sér, að því miður þá endar þessi mikla barátta fyrir að halda fætinum með tapi. Þetta hefur verið harður slagur.

Hér að neðan má sjá myndband með áströlsku hljómsveitinni sem Russell Crowe spilar með en Konráð lék í myndbandinu:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×