Skoðun

Frá Sachsenhausen og STASI til ESB

Margrét S. Björnsdóttir skrifar
Fjöldamorðin í Noregi sýna okkur hvert sjúklegar hugmyndir um yfirburði tiltekinnar trúar, þjóðar eða kynþáttar geta leitt. Á 20. öldinni voru milljónir Evrópubúa drepnir eða ofsóttir í nafni slíkra hugmynda. Berlín er áhrifamikil áminning um þá atburði. Þeir sem heimsækja söfn hennar um fortíðina (s.s. Sachsenhausen, STASI-safnið, leifar Berlínarmúrsins) verða ekki ósnortnir. Árið 1936 voru reistar fyrstu útrýmingar- og þrælkunarbúðir nasista, Sachsenhausen í aðeins 35 km fjarlægð. Þaðan var útrýmingarbúðum nasista í öðrum Evrópulöndum stjórnað af þýskri skipulagshæfni. Árið 1945 tók sovéska og seinna austur-þýska leynilögreglan Sachsenhausen-búðirnar yfir og hýstu þar 60 þúsund pólitíska fanga og stríðsfanga. 20 þúsund þeirra létu þar lífið.

Í miðborg A-Berlínar stóð hið alræmda innanríkisöryggisráðuneyti A-Þýskalands, STASI. Þaðan njósnuðu 91 þúsund A-Þjóðverjar, þegar mest var, um samborgara sína, auk 150 þúsund sjálfboðaliða sem njósnuðu um vinnufélaga, vini og nágranna. Og Berlínarmúrinn lokaði af fyrir 50 árum það sem nefnt var fjölmennustu fangabúðir sögunnar.

Evrópska stál- og kolabandalagið, undanfari Evrópusambandsins, var stofnað 1952 um þær tvær atvinnugreinar til þess að það „að heyja stríð yrði ekki aðeins óhugsandi heldur efnislega ómögulegt“ (Robert Schumann 1950). Í dag er Evrópa friðsamlegri og blómlegri en nokkru sinni, þrátt fyrir erfiðleika. Þjóðir ESB eru helstu viðskiptalönd Íslands og í norður og þar liggja rætur menningar okkar. Með inngöngu í ESB leggur Ísland sitt af mörkum til þess að friður vari í Evrópu og ég fagna því hversu vel utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson heldur á samningaferlinu.

Þegar Berlínarmúrinn féll sóttu A-Evrópuríkin hvert af öðru um inngöngu í Evrópusambandið. Ísland á að styðja að þær þjóðir A-Evrópu sem enn eru utan ESB fái inngöngu eða tengist því nánum böndum. Þannig njóti þær sömu lýðræðis-, mannréttinda- og efnahagsþróunar og aðrar Evrópuþjóðir.

STASI, Sachsenhausen, Berlínarmúr eða viðlíka brot gegn mannhelgi og frelsi af hálfu heilla þjóðríkja geta heyrt sögunni til í Evrópu. Þeir sem halda að það sé sjálfgefið, sagan muni ekki endurtaka sig á okkar menningarsvæði, líti til átaka og fjöldamorða í löndum Júgóslavíu fyrir aðeins 15 árum.




Skoðun

Sjá meira


×