Innlent

Frambjóðandi lofar betra veðri í Reykjavík

Jón Július Karlsson skrifar
Frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík lofar betra veðri í höfuðborginni. Til þess þarf að planta trjám í hlíðum Esjunnar og einnig í kringum úthverfi borgarinnar.

Björn Jón Bragason, sagnfræðingur og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, telur að hægt sé að bæta verulega veðurfar í Reykjavík með skipulögðu átaki. Hann hefur framleitt stuttmynd um hvernig hægja má vind í höfuðborginni með markvissri skógrækt.

Vind lægir í Reykjavík

Í myndinni er gerður samanburður á Reykjavík annars vegar og Keflavíkurflugvelli hins vegar. Vindhraði var svipaður fyrir hálfri öld en talsvert hefur lægt í Reykjavík á þeim tíma sem liðið hefur, aðallega vegna þéttingu byggðar og trjáræktar í og við höfuðborgina. Meðalvindhraði í Reykjavík er í dag 4 m/s en gæti orðið enn lægri ef hugmyndir Björns Jóns ná fram að ganga.

„Þetta er mjög raunhæft, sérstaklega í ljósi þess hversu mikil áhrif gróður hefur haft nú þegar. Það sem er sérstaklega áhugavert er uppgræðsla Esjunnar,“ segir Björn Jón. „Ef við myndum rækta skóg í hlíðum Esjunnar með miklu átaki þá gætum við beinlínis hægt á norðanáttinni og bætt lífsgæði hér enn frekar. Það þarf að ráðast í skipulegt átak í því að koma upp skjólbeltum umhverfis borgarhverfin til þess að hægja á ríkjandi vindáttum.“

Rætt er við Þór Jakobsson veðurfræðing í myndinni og telur hann að aukin skógrækt gæti dregið úr vindi í Reykjavík. Björn Jón stefnir að 2.-3. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna sem fram fer um miðjan nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×