Innlent

Framkvæmdastjóra Lagastoðar haldið sofandi í öndunarvél

Frá skrifstofu Lagastoða í gærdag skömmu eftir árásina.
Frá skrifstofu Lagastoða í gærdag skömmu eftir árásina.
Líðan framkvæmdastjóra Lagastoðar, sem slasaðist lífshættulega í árásinni, er enn óbreytt. Hann gekkst undir umfangsmikla aðgerð í gær og er samkvæmt vakthafandi lækni á gjörgæsludeild haldið sofandi í öndunarvél.

Árásarmaðurinn Guðgeir Guðmundsson er fæddur 1977 en hann reyndi ekki að hylja andlit sitt og virtist yfirvegaður þegar hann var leiddur inn í Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun. Þar var fallist var á gæsluvarðhaldskröfu yfir honum fram á föstudag og honum gert að sæta geðrannsókn, en það tekur um sex til átta vikur að fá niðurstöður úr henni. Guðgeir, sem lýst er af þeim sem þekkja til hans sem rólegum og dagfarsprúðum manni, játaði verknaðinn fyrir dómara.

Það virðist tilviljun ein að Guðgeir hafi ráðist á framkvæmdastjóra Lagastoðar, sem liggur nú þungt haldinn á gjörgæsludeild Landspítalans og er talinn í lífshættu. Guðgeir stakk framkvæmdastjórann margsinnis með hnífi og hlaut hann sár meðal annars á brjósti, hálsi og kviðarholi.

Samstarfsmaður hans, Guðni Bergsson, hlaut einnig tvö stungusár á læri þegar hann kom félaga sínum til aðstoðar og yfirbugaði árásarmanninn. Hann fékk að fara heim í gær eftir að gert hafði verið að sárum hans. Ekki er ljóst hvað Guðgeiri gekk til með árásinni og samkvæmt Brynjari Níelssyni, einum eigenda Lagastoðar, virðast engin óvinveitt samskipti hafa átt sér stað á milli mannsins og stofunnar áður en til hnífaárásarinnar kom.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×