Viðskipti innlent

Framkvæmdastjóri Sinfóníunnar: Útilokað að ráða við hækkun leigu

Magnús Halldórsson skrifar
Útilokað er að Sinfóníuhljómsveit Íslands eða íslenska óperan hafi svigrúm til þess að greiða tvöfalt hærri leigu en nú, en stjórnendur Hörpu telja nauðsynlegt að hækka leiguna svo að rekstur hússins geti komist á réttan kjöl.

Greint er frá málinu í Fréttablaðinu í dag, en stjórnendur Hörpu telja til nauðsynlegt að hækka leigu Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Íslensku óperunnar úr um 170 milljónum á ári í ríflega 340 milljónir, til þess að rétta af rekstur hússins.

Eins og greint var frá í fréttum í síðustu viku þá verður rekstrarhalli Hörpunnar um 407 milljónir króna á þessu ári ef fram heldur sem horfir.

Nær öll atriði í rekstraráætlun fyrir húsið hafa ekki gengið eftir, en miklu munar þó um hækkun fasteignagjalda sem og að ekki hefur gengið eins hratt að byggja upp tekjur af ráðstefnum eins og lagt var upp með, að því er fram kemur í skýrslu KPMG um rekstur Hörpu.

Sigurður Nordal, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að hljómsveitin hefði ekki fjárhagslegt svigrúm til þess að borga hærri leigu en nú, nema að fá til þess sérstaka fjárheimild, sem kæmi þá frá ríkinu.

Ríki og borg eru eigendur Hörpunnar, en ríkið á 54 prósent hlut og borgin 46 prósent. Eigendurnir eru skuldbundnir til þess að leggja húsinu til rekstrarfé í 35 ár en á þessu ári er áætlað að framlagið nemi 983 milljónum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×