Innlent

Framkvæmdir hafnar við Hjartagarðinn

Kristján Hjálmarsson skrifar
Verktakar vinna nú hörðum höndum að því að loka svæðinu.
Verktakar vinna nú hörðum höndum að því að loka svæðinu. Mynd/Vilhelm
Framkvæmdir eru hafnar á Hljómalindarreitnum, hinum svokallaða, Hjartagarði, en fyrirhugað er að reisa 142 herbergja hótel þar.

„Við byrjuðum að loka svæðinu í síðustu viku og vonumst til að fyrstu teikningarnar verði samþykktar í dag,“ segir Pálmar Harðarson, talsmaður Þingvangs ehf. sem á og stendur fyrir framkvæmdum við Hljómalindarreitinn.

„Það er búið að leggja teikningarnar nokkrum sinnum fram en það hafa alltaf komið einhverjar athugasemdir.“

Að sögn Pálmars tekur það nokkra daga til viðbótar að loka svæðinu.

Töluverð mótmæli urðu vegna fyrirhugaðra framkvæmda á reitnum. Pálmar segir að eftir að Þingvangur keypti reitinn hafi eigendur félagsins ekki fundið fyrir mótmælum. „Við keyptum tilbúið deiliskipulag og vinnum bara eftir því. Við höfum ekki fundið fyrir neinu nema það var kveikt í húsinu við Hverfisgötu,“ segir Pálmar.

Niðurrif á reitnum hefst á næstu vikum en meðal þeirra húsa sem rifin verða eru Smiðjustígur 4 og 4a, þar sem skemmtistaðurinn Faktorý var til húsa, sem og Hverfisgata 32 og 34.

Icelandair Hotels, dótturfélag Icelandair Group, ætlar að opna hótelið sumarið 2015.

Hótelið mun heita Icelandair hótel Reykjavík Cultura og verður með aðstöðu til veitingareksturs, bæði inni og úti.

Hótelið verður einnig með garð milli Hverfisgötu og Laugavegar en þar verður aðstaða fyrir margskonar viðburði og skemmtanir.

Hægt er að skoða deiliskipulagið nánar á vef Reykjavíkurborgar. Hér fyrir neðan má sjá teikningu af svæðinu frá Icelandair Hotels.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×