Innlent

Framkvæmdir í borginni: Laugavegur við Kringlumýrarbraut lokaður yfir helgina

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Hér má sjá kort af staðnum sem lokaður er.
Hér má sjá kort af staðnum sem lokaður er. Mynd/Skjáskot af vef Reykjavíkurborgar
Leggja á nýja vatnslögn þvert undir Laugaveg upp við Kringlumýrarbraut nú um helgina. Því verður lokað tímabundið fyrir umferð á því svæði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

„Lokað verður frá kl. 18.00 á föstudag og umferð beint um hjáleiðir. Opnað verður á ný kl. 7.00 á mánudag,“ segir í tilkynningu. „Kringlumýrarbraut verður opin, en ekki verður hægt að beygja inn á Laugaveg.  Bílaumferð niður Suðurlandsbraut þarf einnig að fara um hjáleiðir, en gangandi og hjólandi komast stíginn meðfram Laugavegi.“

Strætisvagnar sem keyra þessa leið halda áfram að ganga en óhjákvæmilegt er að nokkrar biðstöðvar falli út á meðan á framkvæmdunum stendur. Strætó mun nota hjáleiðir um Borgartún og Nóatún og þær biðstöðvar sem falla út verða vel merktar samkvæmt upplýsingum frá borginni.

„Framkvæmdin um helgina er hluti af endurnýjun 600 mm vatnslagnar meðfram Kringlumýrarbraut frá dæluhúsi neðan við Laugaveg upp að Miklubraut. Vatnslögnin verður lögð meðfram núverandi gönguleið og þar kemur nýr hjólastígur.  Jarðvegsframkvæmdir nýtast þannig bæði vatnslögninni og hjólastígnum. Verkefnið er unnið í samstarfi Reykjavíkurborgar, Orkuveitunnar, Mílu og Vegagerðarinnar,“ segir í tilkynningunni.

Í frétt á vef Reykjavíkurborgar eru fleiri ljósmyndir og kort sem sýnir hjáleiðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×