Innlent

Framsókn ætlar að verja minnihlutastjórnina

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins tilkynnti fréttamönnum fyrir stundu að flokkur hans styddi minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Þetta var niðurstaða þingflokks framsóknarmanna sem lauk fyrir stundu.

Því er ljóst að hægt verður að mynda starfhæfa ríkisstjórn undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur. Framsóknarflokkur hafði gert athugasemdir við verkáætlun ríkisstjórnarinnar en tókst að lokum að samþykkja hana.

Sigmundur sagði flokkinn gera það í trausti þess að þau skilyrði sem sett voru fram verði uppfyllt.

Steingrímur J. Sigfússon formaður VG sagði að þau fjögur skilyrði sem Framsóknarflokkurinn hefði sett fram væru öll inni í verkáætlun ríkisstjórnarinnar.

Hann sagði að nú væru menn á beinu brautinni og framundan væri hægt að tímasetja þá fundi sem þyrftu að fara fram áður en ríkisstjórnin tæki við formlega. Forsetinn gæti byrjað að taka til á Bessastöðum og gera allt klárt.

Steingrímur gerir ráð fyrir að þingflokkar stjórnarflokkanna yrðu haldnir í fyrramálið og í kjölfarið yrði flokksráðsfundur í Samfylkingunni.

„Þá er okkur ekkert að vanbúnaði með að kynna innihaldið og það gæti verið um hádegið á morgun," sagði Steingrímur sem var bjartsýnn á að ný ríkisstjórn yrði við völd um kvöldmatarleytið á morgun.

Einnig er ljóst að kosið verður til Alþingis þann 25.apríl næstkomandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×