Innlent

Framsóknarmenn eru líklegastir til að eiga byssu

Brjánn Jónasson skrifar
Hinn dæmigerði íslenski skotvopnaeigandi er karlmaður yfir fimmtugu sem býr á landsbyggðinni og kýs Framsóknarflokkinn. Þetta má lesa úr niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2, sem gerð var í síðustu viku. Fjórðungur íslenskra karlmanna á byssu samkvæmt könnuninni.

Alls eiga 16,2 prósent landsmanna á kosningaaldri, eða einn af hverjum sex, einhvers konar skotvopn. Sé miðað við tölur gunpolicy.org má segja að hver skotvopnaeigandi eigi að meðaltali tvær byssur. Gera má ráð fyrir því að mikill meirihluti þessara skotvopna sé haglabyssur og veiðirifflar.

Munurinn á kynjunum er mikill. 25,3 prósent karlmanna eiga byssu en 7,3 prósent kvenna. Íbúar landsbyggðarinnar eru líklegri til að eiga skotvopn en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu, þó að munurinn sé ekki ýkja mikill. Um 17,8 prósent íbúa landsbyggðarinnar eiga byssu, en 15,5 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins. Þá eru þeir sem eldri eru líklegri til að eiga skotvopn. Alls eiga 18,5 prósent þeirra sem eru 50 ára eða eldri byssu, en 14,3 prósent fólks á aldrinum 18 til 49 ára. Þá sýnir sig að þeir sem eru óákveðnir eða gefa ekki upp afstöðu til flokka eru ólíklegastir til að eiga skotvopn, en í þeim hópum eiga 11,1 og 6,1 prósent byssu.

Hringt var í 1.342 manns þar til náðist í 800, samkvæmt lagskiptu úrtaki 16. janúar og 17. janúar. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Spurt var: Átt þú skotvopn?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×