Enski boltinn

Framtíð Dalglish enn óljós

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Kenny Dalglish segir að það séu engar fregnir af framtíðaráætlunum hans en núverandi samningur hans við Liverpool rennur út í lok leiktíðarinnar.

Dalglish tók við af Roy Hodgson þegar sá síðarnefndi var rekinn í janúar síðastliðnum og síðan þá hefur Liverpool átt betri gengi að fagna en á fyrri hluta tímabilsins. Liverpool á enn möguleika á því að koma sér upp í fimmta sæti leiktíðarinnar áður en henni lýkur.

Dalglish er í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum liðsins enda naut hann velgengni í þessu sama starfi frá 1986 til 1991.

Fjölmiðlar í Englandi telja líklegt að eigendur Liverpool muni bjóða Dalglish nýjan samning en sjálfur segir hann ekkert að frétta af þessu máli.

„Þegar það verður eitthvað að frétta þá mun ég láta vita,“ sagði Dalglish við enska fjölmiðla. „Mér finnst það heiður að fá að vera í þessu starfi og ég hef notið þess.“

Liverpool vann 5-0 sigur á Birmingham um helgina og sungu stuðningsmenn liðsins söngva til heiðurs Dalglish. „Þetta þykir mér vænt um en mér þætti samt betra ef að stuðningsmennirnir myndu syngja um leikmennina því það eru þeir sem sinna því sem þarf að gera inn á vellinum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×