Handbolti

Franska blaðið L´Equipe: Íslendingar eru stóra gildran

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson skorar hér á móti Norðmönnum í gær.
Snorri Steinn Guðjónsson skorar hér á móti Norðmönnum í gær. Mynd/Valli
Íslendingar verða erfiðsti mótherji Frakka í milliriðlinum á HM í handbolta í Svíþjóð samkvæmt pistli franska blaðsins L´Equipe í dag. Ísland er eina liðið í milliriðlinum sem byrjar hann með fullt hús en Frakkar hafa stigi minna.

Denis Lathoud, blaðamaður franska blaðsins, skrifar um möguleika franska liðsins í riðlinum og segir að Frakkar þurfi að óttast íslenska landsliðið því Íslendingar séu stóra gildran í riðlinum. Lathoud varð meðal annars heimsmeistari með Frökkum á Íslandi árið 1995.

„Íslenska liðið er skipað kröftugum leikmönnum sem spila frábæran varnarleik. Það er valinn maður í hverju rúmi í liðinu og þarna er á ferðinni heimsklassalið sem getur farið alla leið í þessari keppni. Þetta eru þrekmiklir og fljótir strákar," skrifar Denis Lathoud.

Hann segir líka að það hjálpi íslenska liðinu að leikmennirnir séu vanir að komast langt og þekki þessa stöðu því mjög vel.

Lathoud skrifar einnig um hina mótherja franska liðsins. Hann segir að Norðmenn spili goðan handbolta en að þeim skorti líkamlegan styrk. Hann segir líka að Ungverjar hafi ekki nógu mikla breidd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×