Innlent

Frímerkjasafnari fékk frímerki með sjálfum sér

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Íslenskur frímerkjasafnari vann til alþjóðlegra verðlauna fyrir frímerkjasafn sitt í Seoul í Suður-Kóreu í byrjun mánaðar, en sjötíu virtir frímerkjasafnarar víðsvegar að úr heiminum tóku þátt í sýningunni.

Sigtryggur Rósmar Eyþórsson vann verðlaunin fyrir frímerkjasafn sitt, Icelandic postal stationary, en það eru íslensk bréfspjöld frá árunum 1879 til 1920 með mismunandi verðgildi. Bréfspjöldin voru gefin út af póstþjónustunni og flokkast sem frímerki.

Er þetta í fyrsta sinn semÍslendingur tekur þátt í heimssýningunni í Suður-Kóreu, en þáttökukröfur eru afar strangar og gullverðlaunin því mikill heiður.

Auk verðlaunapenings og verðlaunagrips frá kóresku póstþjónustunni fékk Sigtryggur í verðlaun frímerkjaörk með mynd af honum sjálfum, sem gjaldgeng eru í Suður Kóreu.

Hér má sjá frímerkin sem Sigtryggur prýðir.
Sigtryggur vill þó ekki gefa upp neitt um verðmæti safnsins, sem hann hefur ferðast með víða um heim.

Frímerkjasöfnun var vinsæl meðal ungmenna hér á árum áður, en Sigtryggur segir að söfnunin sé nú á undanhaldi og mun minna um hana en áður. Hann hvetur þó ungu kynslóðina til að kynna sér frímerkjasöfnun, og bendir á að Klúbbur skandinavíusafnara stendur fyrir ókeypis frímerkjafræðslu og námskeiðum hálfsmánaðarlega í Seljakirkju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×