Innlent

Frosti vill fá nefið sitt aftur

Frosti hamingjusamur með nefið sitt.
Frosti hamingjusamur með nefið sitt.
Sá dularfulli atburður gerðist á dögunum að óprúttinn þjófur stal nefi af risastórum snjókarli sem er staðsettur á Ráðhústorginu á Akureyri.

Það er orðið hefð fyrir því í febrúarmánuði að feitur og fallegur snjókarl komi sér makindalega fyrir á Ráðhústorgi á Akureyri og gleðji jafnt unga sem aldna, jafn bæjarbúa sem gesti sem sækja bæinn heim.

Snjókarlinn, sem heitir Frosti, vill gjarnan skarta sínu fegursta fyrir þá sem koma að sjá hann en nú ber svo við að nefinu hans hefur verið stolið og er þetta í annað sinn í þessari viku sem einhver eða einhverjir sjá sig knúna til að ræna hann þessum líkamshluta.

Þeim sem hafa lagt vinnu í að búa til snjókarlinn Frosta finnst það afar hvimleitt að hann fái ekki að vera í friði og hvetja þann eða þá sem eru með nefin tvö til að skila þeim hið snarasta og má til dæmis leggja það, eða þau, við hlið snjókarlsins eða við tröppur Ráðhússins. Þetta er í þriðja skipti sem snjókarlinn tapar nefinu sínu en í fyrra var því einnig stolið. Það skilaði sér þó sem betur fer aftur.

Það er mjög svo miður að snjókarlinn fái ekki að vera í friði og taka Akureyringar atvikið nærri sér. Þeir sem hafa einhverjar upplýsingar um nefin eru beðnir um að hafa samband við Akureyrarstofu í netfangið: Akureyrarstofa@akureyri.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×