Viðskipti innlent

Frystitogarar víkja fyrir ísfiskskipum

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Örar breytingar eiga sér nú stað í sjávarútvegi á Íslandi. Frystitogurum fækkar en þess í stað fjölgar ísfiskskipum sem skila ferskum afla á land. Mjög jákvæð þróun segir sérfræðingur í sjávarútvegi.

Fækkun frystitogara er fyrirsjáanleg við Íslandsstrendur á næstu árum. Þess í stað eru sjávaútvegsfyrirtæki að færa veiðar sínar í síauknum mæli yfir á ísskip sem koma með ferskan afla að landi.

Spáir fækkun um þriðjung

Pétur Pálsson, forstjóri Vísis í Grindavík, segir í samtali við vefsíðuna Kvótinn.is að líklega muni skipum á bolfiskveiðum fækka um þriðjung á næstu þremur árum. Þessi þróun eykur vinnslu í landi og skilar meiri verðmætum úr veiddum afla. Jákvæð þróun segir sérfræðingur í sjávarútvegi.

„Þarna er verið að færa meira af fiski í land sem hægt er nýta að öllu leyti - haus og allar aukaafurðir - og um leið að ná fiskinum í hæsta verðflokk. Með þessu fjölgum við klárlega störf í landi. Fyrst og fremst aukum við verðmætasköpunina úr þessari takmörkuðu auðlind,“ segir Ögmundur Knútsson, forseti viðskipta- og raunvísindasviðs Háskólans á Akureyri.

Ögmundur segir að íslenskur sjávarútvegur sé í fararbroddi í verðmætasköpun. Aflinn er betur nýttur en áður og vörur þróaðar úr aukaafurðum fisksins sem gætu þegar fram líða stundir jafnvel orðið verðmætari en sá hluti sem notaður er til matvælaframleiðslu.

Nánar er fjallað um sjávarútveg á Íslandi í kvöldfréttum Stöðvar 2 sem sjá má hér að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×