Innlent

Fullkomin leið til að drepa málinu á dreif

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Magnús Orri Schram þingmaður Samfylkingarinnar.
Magnús Orri Schram þingmaður Samfylkingarinnar.
Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að með breytingatillögu Margrétar Tryggvadóttur þingmanns við stjórnarskrármálið á Alþingi hafi andstæðingar stjórnarskrárferilsins fengið fullkomna ástæðu til þess að drepa málið í málþófi. Samkomulag hafði tekist á milli stjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar um frumvarp og þingsályktunartillögu þess efnis að stjórnarskrárfrumvarpið yrði ekki afgreitt í heild heldur yrði hægt að ljúka heildarendurskoðun á næsta kjörtímabili og nýtt þing gæti samþykkt það. Í umræðu um málið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í gær lagði Margrét hins vegar til að stjórnarskrárfrumvarpið yrði samþykkt í heild.

Magnús Orri segir að með tillögu formanna stjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar sé verið að reyna að stíga skref til þess að viðhalda stjórnarskrárferlinu á næsta þingi og vinna málið í sátt og samlyndi. „Breytingatillaga Margrétar setur sáttaferlið í uppnám vegna þess að nú hafa andstæðingar stjórnarskrárferilsins fullkomna ástæðu til að drepa málið í málþófi. Nú er ekki bara verið að fjalla um sáttartillöguna heldur mun umræðan litast af heildarplagginu og stöðu þess," segir Magnús Orri.

„Það er þess vegna sem ég óttast að okkur takist ekki að sigla málinu í höfn á þessu kjörtímabili," segir Magnús Orri. Hann bendir auk þess á að málið verði ekki klárað alveg fyrir kosningar vegna þess að það þurfi alltaf nýtt þing til að samþykkja það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×