Innlent

Dæmi um að grunnskólabörn selji sig á vefnum

Hafsteinn Hauksson skrifar
Kynferðisbrotum gegn börnum sem rekja má til samskipta á Netinu hefur fjölgað um helming á síðustu fjórum árum. Forstöðumaður Barnahúss veit um sex alvarleg vændismál þar sem grunnskólabörn hafa selt sig eldri mönnum á vefnum.

Börn allt niður í átta ára aldur hafa orðið fyrir kynferðisbrotum af hálfu geranda sem þau kynntust í gegnum netið, en í því tilfelli var brotið á barninu í gegnum vefmyndavél. Undanfarin ár hefur fjöldi mála á borði Barnahúss þar sem ókunnugur gerandi kynnist þolanda í gegnum netið farið stigvaxandi. Í fyrra voru þau alls tuttugu talsins, en þeim hafði þá fjölgað um meira en helming frá árinu 2007.

Ólöf Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss, telur að rekja megi fjölgunina til aukinnar netnotkunar, og hér sé um nýja leið gerenda til að nálgast þolendur að ræða. Hún taki eftir að gerendur hafi fært sig af MSN spjallforritinu og yfir á Facebook samskiptavefinn, en börnin sem eru í mestri hættu séu á aldrinum 13 til 15 ára. Þau hafi ómótaða sjálfsmynd, ólíkt eldri unglingum, og treysti því sem þau sjá og heyra á vefnum.

„Þá er þetta oft svona ákveðin blekking; viðkomandi fullorðni einstaklingur hefur þá einhverja aðra mynd heldur en af sjálfum sér, eða jafnvel enga mynd," segir Ólöf. „Þetta byrjar þá yfirleitt í formi spjalls á spjallvefnum á Facebook. Svo er ákveðið að hittast og síðan kemur kannski í ljós að viðkomandi er mun eldri en barnið heldur. Einnig er stundum um að ræða 19 eða 20 ára einstaklinga sem ekki villa á sér heimildir, og úr því verður brot."

Ólöf veit auk þess til þess að fullorðið fólk leiti að barnavændi í gegnum vefinn.

„Við höfum séð nokkur alvarleg vændismál hér á Íslandi þar sem börn á aldrinum 13 til 15 ára hafa verið að selja líkama sinn fullorðnum. Það hefur verið sérstaklega með því að auglýsa á Einkamál.is. Þau eru jafnvel með sér síma fyrir þessa vændisþjónustu. Við höfum séð, áætla ég, svona sex mjög alvarleg slík mál síðastliðin tvö ár."

Ólöf segist telja að mál af þessum toga komist þó ekki alltaf upp þar sem börnin segi hugsanlega síður frá, því þeim finnst þau þekkja gerandann eftir að hafa verið í sambandi við hann á vefnum. Auk þess líði þeim stundum eins og þau hafi brotið gegn reglum eða viðvörunum sem þeim hafi verið settar, og því þori þau ekki að segja frá. Þetta þurfi foreldrar að hafa í huga við fræðslu.

„Þess vegna er svolítið mikilvægt að þegar foreldrar eru að fræða börnin sín, þá upplýsi þau börnin á almennan hátt um hvað er mögulegt í gegnum netið, svo börnin eigi auðveldara með að segja frá seinna meir."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×