Íslenski boltinn

Fundað um leikbann Hannesar á morgun

Stefán Árni Pálsson skrifar
Aga - og úrskurðarnefnd KSÍ mun ákveða á fundi sínum á morgun hvort Hannes Þór Halldórsson, markvörður KR, hafi tekið út leikbann þegar Breiðablik og KR mættust í Pepsi-deild karla í gær.

Leikurinn var flautaður af eftir aðeins fjögurra mínútna leik þegar Elfar Árni Aðalsteinsson, leikmaður Breiðabliks, fékk slæmt höfuðhögg og ekki voru aðstæður til að halda leik áfram.

Hannes Þór Halldórsson átti að taka út leikbann í leiknum og var Rúnar Alex Rúnarsson því milli stanganna  hjá KR í gær.

Í reglugerð aga- og úrskurðamála KSÍ kemur ekkert fram varðandi svona tilvik en aftur á móti er talað um að aga- og úrskurðamál taka mið af reglum FIFA.

Í 19. kafla reglugerðar FIFA kemur fram að ef leikur er stöðvaður og ábyrgðin liggur ekki hjá liðinu sem umræddur leikmaður leikur fyrir er talið að hann hafi tekið út leikbannið.

Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ, staðfesti í samtali við Vísi fyrr í dag að sambandið myndi funda um málið síðar í dag. Niðurstaðan er sú að ákvörðun verður tekin á vikulegum fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×