Íslenski boltinn

Fylkir fær tvo nýja leikmenn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fylkis.
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fylkis. Mynd/Daníel
Svíinn Emil Berger og Svisslendingurinn Guy Roger Eschmann eru báðir á leið til Fylkismanna og munu spila með liðinu út leiktíðina að minnsta kosti.

Berger er 22 ára gamall og er á mála hjá Örebro sem er í efsta sæti sænsku B-deildarinnar. Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fylkis, sagði við Vísi að Fylkismenn beri miklar væntingar til hans.

„Miðað við allar þær upplýsing sem við höfum aflað okkur þá gefur þessi leikmaður góð fyrirheit. Svo verður bara að koma í ljós hvernig hann nýtist okkur,“ segir Ásmundur. „En hann lofar vissulega góðu.“

Berger var byrjunarliðsmaður er Örebro lék í sænsku úrvalsdeildinni síðustu tvö tímabil en veiktist í upphafi þessa tímabils. Liðinu hefur svo gengið mjög vel og Berger gengið illa að vinna sér sæti í liðinu. Hann lítur því á veru sína hér á landi sem tækifæri til að fá að spila á ný.

„Guy Roger Eschmann ætti svo að fá leikheimild á næstu dögum en hann æfði með okkur um daginn. Þetta er sóknrmaður sem getur leyst allar fjórar fremstu stöðurnar,“ segir Ásmundur.

Eschmann er ættaður frá Tógó en uppalinn í Sviss. Hann spilaði síðast með Hapoel Petah Tikva í Ísrael en hann á nokkra leiki að baki með yngri landsliðum Sviss. Eschmann mun semja við Fylki og allt eins líklegt að hann spili áfram með liðinu að tímabilinu loknu.

Liðsstyrkurinn er kærkominn fyrir Fylki þar sem að liðið missir þrjá leikmenn til Bandaríkjanna í nám í næsta mánuði. „Andri Þór, Oddur Ingi og Davíð Þór eru allir á leið út auk þess sem að lánssamningur Andrés Más rennur út 10. ágúst.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×