Enski boltinn

Fyrsta tap Mourinho | Everton ósigrað

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Steven Naysmith fagnar marki sínu.
Steven Naysmith fagnar marki sínu. Nordicphotos/Getty
Afmælisbarnið Steven Naysmith skoraði sigurmark Everton í 1-0 sigri á Chelsea á Goodison Park. Fyrsta tap Lundúnaliðsins í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni er því staðreynd.

Leikurinn var afar fjörugur og fengu liðsmenn Chelsea fjölda færa í fyrri hálfleik. Ýmist voru gestirnir klaufar eða Tim Howard bauð upp á glæsivörslur í markinu. Allt stefndi í markalausan fyrri hálfleik þegar Naysmith skallaði boltann í netið af stuttu færi eftir undirbúning Nikica Jelavic.

Síðari hálfleikur var einnig opinn og skemmtilegur. Chelsea sótti meira en Everton fékk sín færi úr skyndisóknum. Leighton Baines setti boltann í vinkilinn úr aukaspyrnu en heldur dró af gestunum eftir því sem á leikinn leið.

Sigurinn var sá fyrsti hjá Everton undir stjórn Roberto Martinez í deildinni. Liðið hafði gert þrjú jafntefli í fyrstu þremur leikjunum. Tapið var hið fyrsta hjá Jose Mourinho og hans mönnum hjá Chelsea.

Chelsea hefur sjö stig eftir fjórar umferðir en Everton sex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×