Menning

Rauðir, stinnir og safaríkir

Nú eru ræktaðar fjórar tegundir tómata hér á landi og garðyrkjubændur telja líklegt að íslensku tegundunum muni halda áfram að fjölga á næstunni. Guðjón Birgisson á Melum á Flúðum er frumkvöðull í tómatarækt hér á landi, en hann var sá fyrsti sem byrjaði að rækta tómata allt árið og nota til þess sérstaka lýsingu. "Ég var einn að þessu í sex, sjö ár en nú erum við orðnir fimm sem notum lýsingu þannig að framboðið til neytenda er orðið miklu meira. Í vetur framleiddum við helmingi meira en veturinn þar áður og það rauk allt út." Guðjón byrjaði að rækta tómata árið 1981 og hann segir að margt hafi breyst síðan þá. "Þegar ég byrjaði fengust um 21 kíló á fermetrann á hverju ári en nú eru þeir sem eru í hefðbundinni ræktun komnir í svona 31 kíló á sumrin og við sem erum með lýsinguna erum komin með allt að 70 kíló." Guðjón segir að viðtökur neytenda hafi verið góðar, sérstaklega eftir að farið var að merkja íslensku tómatana betur. Nú hefur enn verið gert átak í pakkningum og merkingum þannig að allir tómatar eru rekjanlegir til framleiðanda. "Það getur gert heilmikið því áður voru alls konar merkingar í gangi en nú áttar fólk sig betur á því hvað það er að kaupa." Guðjón segir að fólk telji íslensku tómatana almennt betri en innflutta. Því velji fólk þá frekar þótt verðið sé hærra á veturna vegna kostnaðar við lýsinguna. "Við búum náttúrlega það vel að vera með ofsalega gott vatn og nær enga mengun. Garðyrkjubændur á Íslandi nota yfirhöfuð engin eiturefni, en eini munurinn á minni ræktun og lífrænni ræktun er sá að ég nota tilbúinn áburð." Knútur Rafn Ármann á Friðheimum byrjaði að rækta tómata árið 1995 og fór að nota lýsingu árið 2002. "Við hjónin komum úr Reykjavík en konan mín, Helena Hermundardóttir, er garðyrkjuskólagengin og ég hafði verið í Bændaskólanum á Hólum. Því lá það beint fyrir að við myndum finna okkur garðyrkjustöð einhvers staðar."  Knútur Rafn segir að tómataræktin hafi legið nokkuð beint við. "Það felst svolítil áskorun í þessari ræktun, en það er þó nokkur kúnst að rækta tómata ef maður ætlar að fá góða uppskeru. Þar að auki er það nokkuð gaman. Það þarf að stýra plöntunum rétt og ef plönturnar sýna ákveðin einkenni þarf að koma með mótleiki. Þetta er næstum eins og í skák." Knútur Rafn segir að íslenskir garðyrkjubændur þyki vera að ná góðum árangri í tómataræktun ef miðað er við önnur lönd. "Ég vil meina að við séum í fremstu röð ásamt Finnum hvað raflýsingu á tómötum varðar. Við erum líka alltaf að reyna eitthvað nýtt og ég hef meðal annars verið að prófa að ágræða tómataplöntur. Þá sáum við tveimur tegundum tómataplantna. Önnur er hálfgerð villiplanta með öflugt rótarkerfi en hin er með betri tómata. Þegar þær eru um fimm cm stórar skerum við þær í sundur, meðhöndlaðar sérstaklega til að þær grói saman og græðum þessa með góðu tómatana yfir á þessa með sterku rótina." Knútur Rafn og Helena rækta hefðbundna tómata en einnig svokallaða konfekttómata, eða plómulagaða cherrytómata. Þeir þykja bragðmeiri og sætari en hefðbundnu tómatarnir. Hann segir afar mikilvægt að halda hinum vistvæna stimpli. "Tómatar eru 90% vatn og við vökvum með hreinu og góðu íslensku drykkjarvatni, þannig að þetta er eins heilnæm framleiðsla og hægt er að hafa."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×