Innlent

Reykjavíkurgoðorð verður félag

Reykjavíkurgoðorð varð í dag formlegt félag en það er skipað ásatrúarmönnum sem sagt hafa skilið við Ásatrúarfélagið. Sáttanefnd var skipuð en ef ekki nást sættir við Ásatrúarfélagið verður nýtt félag ásatrúarmanna stofnað og opinberrar rannsóknar óskað á fjárreiðum Ásatrúarfélagsins. Reykjavíkurgoðorð hefur verið til frá árinu 1972 en ekki sem formlegt félag með eigin lög og stjórn. Það gerðist hins vegar í dag og Jörmundur Ingi, fyrrverandi allsherjargoði, skipaður Reykjavíkurgoði. Fyrir fundinum lá einnig að taka afstöðu til þess hvort krefjast ætti uppskiptingar Ásatrúarfélagsins og opinberrar rannsóknar á fjárreiðum félagsins. Ákveðið var að áður en til þess kæmi yrði leitað sátta. Nefnd var skipuð til þeirra starfa og að sögn Jörmundar Inga hefjast sáttaumleitanir á næstunni. Hann segir að ef þær bera ekki árangur muni nefndin skoða lagalegan grundvöll þess að krefjast uppskiptingar Ásatrúarfélagsins sem og að opinber rannsókn fari fram á fjárreiðum félagsins og stjórnarháttum. Einnig stendur til að stofna goðorð á Norður- og Austurlandi og verður því nýtt félag ásatrúarmanna stofnað, takist ekki að bera klæði á vopnin meðal ásatrúarmanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×