Menning

Mengun eykst umfram bílaeign

Borgarbúar kaupa sífellt kraftmeiri og stærri bíla svo mengun hefur aukist umfram bílaeign undanfarin ár. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri úttekt um losun gróðurhúsalofttegunda frá vegsamgöngum í Reykjavík. Í úttektinni kemur fram að mengun hafi aukist um tæp tíu prósent frá árinu 1999 til ársins 2002 en bílaeign hafi aukist um 6,6 prósent á sama tíma og eldsneytisnotkun aðeins um 3,4 prósent. Hjalti Guðmundsson, landfræðingur hjá Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, segir þetta stafa af því að Íslendingar kaupi sífellt kraftmeiri og þyngri bíla. Þó að bílvélarnar séu að batna aukist mengunin vegna þess að jeppanotkun sé orðin meiri en áður. Kraftur meðalbensínbíls í Reykjavík jókst um 5% á tímabilinu 1999 til 2002 en kraftur díselbíla í borginni jókst að jafnaði um 10% á sama tíma. Slíkir bílar verða æ vinsælli að sögn Hjalta. Hann segir þróunina í þá átt að meðalmaðurinn sé að skipta út fólksbílnum sínum fyrir stóran díselbíl. Í skýrslunni, sem kynnt var á fundi umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur í síðustu viku, kemur fram að fólksbílaeign hafi aukist um rúm fimmtíu prósent á síðustu átta árum í borginni. Í fyrra voru bílarnir á hverja þúsund íbúa orðnir 615 talsins. Hjalti segir þetta þýða að í Reykavík sé hvorki meira né minna en einn bíll á hvert bílpróf.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×