Innlent

Olíustjórnendur enn að störfum

Þrátt fyrir að olíufélögin Essó, Skeljungur og Olís hafi skipt um eigendur frá því að verðsamráði þeirra lauk í kjölfar húsleitar Samkeppnisstofnunar þá starfa margir stjórnenda enn hjá félögunum sem taldir eru eiga aðild að samráðinu. Einar Benediktsson, forstjóri Olís, er eini forstjóri olíufélaganna þriggja sem hætti ekki störfum í kjölfar rannsóknar Samkeppnisstofnunar. Hann er annar tveggja eigenda félagsins. Hjá Olís starfa líka Jón Halldórsson hjá markaðssviði stórnotenda og Samúel Guðmundsson í fjárfestingum og áhættustýringu, en þeirra beggja er víða getið í niðurstöðu samkeppnisráðs um verðsamráðið. Gunnar Karl Guðmundsson, núverandi forstjóri Skeljungs, starfaði hjá félaginu meðan á samráðinu stóð. Margrét Guðmundsdóttir starfar á neytendasviði félagsins og Friðrik Þ. Stefánsson hjá fyrirtækjasviði. Bæði koma þau við sögu í niðurstöðu samkeppnisráðs. Starfsmenn Essó sem eru taldir tengjast samráðinu og starfa enn hjá Essó eru Magnús Ásgeirsson í eldsneytiskaupum og umhverfismálum og Heimir Sigurðsson, framkvæmdastjóri neytendasviðs. Þá er í niðurstöðu samkeppnisráðs getið um aðild Gunnars Skaptasonar, framkvæmdastjóra Orkunnar, að samráðinu. Orkan er nú í eigu Skeljungs. Pálmi Haraldsson, stjórnarformaður Skeljungs, vildi ekki svara því hvort staða starfsmanna félagsins sem taldir eru tengjast verðsamráðinu sé til athugunar. Ekki náðist í stjórnarformenn Olís og Essó. Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í umræðum á Alþingi fyrir skömmu að fyrirtæki sem tengjast verðsamráðinu verði að reyna að öðlast traust almennings á nýjan leik. Almennt tíðkist það í þróuðum samfélögum að þegar svona komi upp hreinsi menn til hjá sér til að ná því markmiði.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×