Innlent

Þingið leyndi hækkuninni

Alþingi leyndi landsmenn fyrirætlun sinni um að taka fyrir hækkun áfengisgjalds á þinginu í gær. Þetta var gert svo almenningur hamstraði ekki sterka drykki og tóbak í stórum stíl. Það varð að samþykkja frumvarp fjármálaráðherra um hækkun gjaldsins með afbrigðum þar sem það var ekki sett á dagskrá þingsins í fyrradag eins og þingskaparlög gera ráð fyrir. Ástæðan eru áhyggjur þingmanna af því að almenningur myndi flykkjast í áfengisverslanir og hamstra sterkt áfengi og tóbak. Þess vegna var málinu lætt í gegnum þingið, afar hljóðlega. Samkvæmt frumvarpinu hækkar áfengisgjald um 7% og tóbaksgjald einnig um 7%. Áfengisgjald af léttu víni og bjór hækkar ekki. Telja má að smásöluverð á sterku víni hækki um u.þ.b. 5,6% og verð á tóbaki um 3,7% að jafnaði. Tekjuauki ríkissjóðs vegna þessara hækkana nemur allt að 340 milljónum króna samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins. Samtök ferðaþjónustunnar hafa sent frá sér ályktun þar sem segir að 7% hækkun áfengisgjalds, sem Alþingi samþykkti í gærkvöldi, gangi þvert á þá stefnu ríkisstjórnarinnar að ferðaþjónustufyrirtækjum á Íslandi verði sköpuð sambærileg rekstrarskilyrði og gilda í samkeppnislöndum. Er hækkun áfengisgjaldsins því harðlega mótmælt. Greiningardeild KB banka hefur endurskoðað verðbólguspá fyrir desember og er hún 0,3% í stað 0,1% áður. Þingmenn stjórnarflokkanna samþykktu frumvarpið ásamt Vinstri grænum en Frjálslyndir og Samfylking sátu hjá.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×