Innlent

Sjálfstæði Alþingis verði tryggt

Stjórnarandstöðuflokkarnir leggja mikla áherslu á að sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu verði tryggt við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Níu fulltrúar stjórnmálaflokkanna verða í stjórnarskrárnefndinni en nefndinni til fulltingis verður hópur sérfræðinga. Stjórnarandstaðan hefur formenn stjórnarflokkanana grunaða um að vilja nota tækifærið og afnema málskotsrétt forseta. Bryndís Hlöðversdóttir, þingmaður Samfylkingar, segir mikilvægt að þetta verði heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem hafi staðið til að gera allan lýðveldistímann. Stjórnarskrárnefndin eigi hafi samráð við almenning og félagasamtök og taka sér allan þann tíma sem hún þurfi. Hún kveðst ekki sammála forsætisráðherra, eftir því sem henni skilst á máli hans, að mikilvægast í þessu máli sé að styrkja stöðu þingsins gagnvart forseta lýðveldsins. Miklu mikilvægara sé að styrkja stöðu þess gagnvart framkvæmdavaldinu því þar hafi orðið lýðræðisleg öfugþróun á síðustu árum. Steingrímur J Sigfússon, formaður Vinstri-grænna, segir mikilvægt að allir komi að hreinu borði og setji engin skilyrði fyrirfram um niðurstöðuna. Hann vonar að mönnum takist að varðveita þverpólitíska samstöðu um breytingar. Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segir fjölmargt undir þegar kemur að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Málskotsréttur forsetans sé tvímælalaust réttur þjóðarinnar sem þurfi að verja, sem og sjálfstæði Alþingis. Hann álítur að ríkisstjórnin hafi fengið að „ráða nánast öllu í gegnum þingið“ á undanförnum árum og það heyri til undantekninga ef þingmenn utan ríkisstjórnar hafa komið málum í gegn Það sé ljóst að endurskoðunin muni taka að einhverju leyti mið af átökunum síðastliðið sumar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×