Innlent

Ríkið sýknað af 25 milljóna kröfu

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði íslenska ríkið í dag af tuttugu og fimm milljóna króna skaðabótakröfu vegna meintra mistaka við mæðraeftirlit á Kvennadeild Landspítalans. Það voru foreldrar sem stefndu ríkinu fyrir hönd ólögráða sonar síns sem er mikið fatlaður. Móðirin varð þunguð með aðstoð glasafrjóvgunar og fæddi barn sitt á Landspítalanum árið 1993 og var það með naflastrenginn vafinn um hálsinn og hnút á strengnum. Barnið varð fyrir súrefnisskorti og hlaut spastíska lömun. Deilt var um hvort rétt hefði verið staðið að mæðraeftirliti á meðgöngunni. Móðirin bar að hún hefði viðrað áhyggjur sínar af minnkandi hreyfingum barnsins tveimur og hálfum sólarhring áður en það fæddist og fengið rangar upplýsingar. Það hafi leitt til þess að hún hafi brugðist seinna við þegar fóstrið hætti alveg að hreyfa sig. Héraðsdómur taldi ekki sýnt að mæðraeftirlit hefði brugðist og að nær útilokað hefði verið að koma í veg fyrir alvarlega fötlun barnsins. Ríkið var því sýknað og málskostnaður felldur niður.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×