Erlent

Meira en tíu þúsund látnir

Talið er að yfir 10 þúsund manns hafi látið lífið af völdum flóðbylgja sem gengu yfir sex Asíuríki við Indlandshaf í gær í kjölfar öflugasta jarðskjálfta síðustu 40 ára. Talið er að hamfarirnar hafi sett líf meira en milljón manna úr skorðum. Skjálftinn átti upptök sín skammt vestur af eyjunni Súmötru í Indónesíu. Á þeim slóðum mætast jarðflekar þar sem svonefndur Indó-Ástralíufleki gengur undir Evrasíuflekann með tilheyrandi umbrotum. Skjálftinn var 8,9 stig á Richter-kvarða og námu jarðskjálftamælar hann um allan heim, meðal annars hér á landi. Við jarðskjálftann lyftist sjávarbotninn þannig að gífurlegar flóðbylgjur mynduðust og fóru um sex metra háar á ógnarhraða yfir Indlandshaf. Þær brotnuðu svo á strandlengjum landanna beggja vegna Bengalflóa. Í Indónesíu, Sri Lanka og á Indlandi skoluðust heilu þorpin á braut, sóldýrkendur bárust á haf út og snorkkafarar lömdust yfir kóralrif í túristalendum Taílands. Á Maldíveyjum, eyjaklasa suður af Indlandi sem er um 2.500 kílómetra frá upptökum skjálftans, varð mikið tjón en eyjarnar rísa hvergi hærra en 1,8 metra yfir sjávarmál. Neyðarvakt var komið á í utanríkisráðuneytinu í gær vegna íslensks ferðafólks sem er á ferð í Asíu og setti fjöldi ættingja sig í samband við ráðuneytið til þess að spyrjast fyrir um afdrif Íslendinga sem staddir eru á hamfarasvæðunum. Ekki er vitað til þess að Íslendingar hafi skaðast í flóðunum, en í gærkvöld hafði þó ekki náðst í nokkurn hóp fólks ennþá. Á lista ráðuneytisins yfir Íslendinga á þessum slóðum voru um 65 manns. Símasamband við hamfarasvæðin var stopult, en í utanríkisráðuneytinu fengust þær upplýsingar að reynt yrði að aðstoða fólk eftir megni í gegnum ræðismenn á viðkomandi stöðum eða norrænu utanríkisþjónustuna. Fregnir bárust þó af því að stöku ferðamenn hafi verið hætt komnir og mörgum var mjög brugðið. Talsvert er af erlendum ferðamönnum á skjálftasvæðunum og er fjölmargra saknað.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×