Lífið

Hljómalind verður kaffihús

"Við hringdum í Kidda, sem rak Hljómalind, og hann gaf okkur strax leyfi til að nota nafnið. Hann var mjög ánægður með að við skyldum vilja nota það," segir Helena Stefánsdóttir, sem ásamt sex félögum sínum er að opna nýtt kaffihús að Laugavegi 21, þar sem plötubúðin Hljómalind var áður til húsa. "Við ákváðum að Kaffi Hljómalind væri einfaldlega besta nafnið á staðinn, það kannast allir við húsið undir því nafni." Margt verður óvenjulegt við þetta nýja kaffihús í miðbæ Reykjavíkur, sem opnað verður á sunnudaginn kemur. Til dæmis verður það bæði áfengis- og reyklaust, og svo verður öllum hagnaði af rekstri þess varið til góðgerðarmála. "Okkur langar svo til að búa til vettvang fyrir unglinga, til dæmis á menntaskólaaldri, sem hafa ekki aldur til að komast á tónleika þar sem vínveitingar eru leyfðar," segir Helena um reyk- og áfengisleysið. Hugmyndin að rekstrarforminu er hins vegar komin frá indverskum heimspekingi, P.R. Sarkar, sem útfærði nýjar hugmyndir um samvinnurekstur sem reyndar hafa verið víða um heim. "Til dæmis veit ég um heilt samfélag í Kanada sem er rekið með þessum hætti. Fyrirtækið á sig í rauninni sjálft. Enginn getur því grætt neitt á rekstrinum, menn fá bara laun fyrir sína vinnu en hagnaðurinn kemur öðrum til góða." Öll innkoma af opnunarkvöldinu á sunnudaginn rennur til dæmis beint í söfnun til hamfaranna í Asíu. Hugmyndin er sú að kaffihúsið verði vettvangur fyrir grasrótartónlist, opinskáa samfélagsumræðu og námskeið sem tengjast bættu samfélagi. Þar verður eingöngu seldur lífrænn matur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.