Innlent

Snjóflóðahætta liðin hjá

Íbúar í tveimur íbúðarhúsum af þremur á bæjum í Reynishverfi í Mýrdal, sem þurftu að yfirgefa heimili sín í gærkvöldi, fengu að snúa aftur heim fyrir stundu. Fólkið rýmdi hús sín að tilmælum Almannavarnanefndar Vestur-Skaftafellssýslu og gistu á öðrum bæjum í nótt. Í gærkvöldi féll snjóflóð í grennd við bæinn Garða í Reynishverfi og var þá ákveðið að rýma Garða og tvö hús í viðbót. Þá hefur annað lítið flóð fallið í grennd við bæinn Lækjarbakka en án þess að valda tjóni. Talsvert snjóaði eystra í nótt en það er þurr púðursnjór og hefur ekki safnast í skafla. Bændur fengu að gegna búpeningi sínum á bæjunum í morgun en að loknu ítarlegu mati fékk fólk af tveimur bæjunum að snúa heim fyrir stundu. Íbúar eins þurfa áfram að dvelja annars staðar. Mikill snjór er á svæðinu en veðurspá er hagstæð, eða fram á fimmtudag að spáð er stórhríð sem á svo að breytast í rigningu. Við það geta skapast hættuleg skilyrði. Tvö snjóflóð féllu úr Kirkjubólshlíð í gærkvöldi og lokuðu þjóðveginum á milli Súðavíkur og Ísafjarðar. Vegna frekari flóðahættu var ekki ráðist í að ryðja veginn í gærkvöldi en vegagerðarmenn opnuðu veginn snemma í morgun.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×