Innlent

Lögreglumenn fá ekki skaðabætur

MYND/Páll
Hæstiréttur hefur sýknað ríkið af skaðabótakröfu tveggja lögregluþjóna sem slösuðust í íþróttakappleikjum lögreglumanna. Samkvæmt kjarasamningi lögreglumanna töldust þó báðir vera að störfum þegar þeir slösuðust. Annar lögregluþjónanna slasaðist í fótboltaleik í hinni árlegu vaktakeppni Sýslumannsembættisins á Akureyri árið 1999. Hann lenti í samstuði við annan leikmann og við það slitnaði krossband í hné. Hann hlaut 10 prósenta örorku vegna slyssins. Hinn lögregluþjónninn slasaðist árið 2000 á norrænu handboltamóti lögreglumanna í Sandefjord í Noregi. Í ljós kom slit á krossbandi og var maðurinn úrskurðaður 12 prósent öryrki vegna slyssins. Tryggingastofnun ríkisins hafnaði bótakröfu beggja manna, annar vegar þar sem slysið hefði orðið utan vinnutíma og hins vegar vegna þess að Íþróttafélag lögreglumanna væri ekki hefðbundið íþróttafélag. Þeir höfðuðu mál á sínum tíma gegn Tryggingastofnun en töpuðu því. Þeir fengu síðar bætur úr slysatryggingu launþega og frá tryggingafélagi, annar 800 þúsund krónur og hinn milljón, en telja ríkið skaðabótaskylt þar sem þeir eigi samningsbundinn rétt til bóta vegna slysanna. Mennirnir vísa til kjarasamnings fjármálaráðherra og Landssambands lögreglumanna þar sem skýrt komi fram að lögreglumenn skuli teljast að störfum þegar þeir stundi lögregluæfingar, íþróttir og kappleiki á vegum félaga lögreglumanna. Hæstiréttur fellst ekki á þau rök mannanna að ríkið þurfi að greiða þeim bætur samkvæmt almannatryggingalögum, eftir að Tryggingastofnun hafnaði kröfunni. Þá er ennfremur bent á að mennirnir hafi fengið bætur úr slysatryggingu launþega og er ríkið því sýknað af kröfu beggja manna.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×