Matur

Lífrænar vörur breiða úr sér

Lífrænt ræktuð fæða var á árum áður aðeins fáanleg í sérverslunum en á skömmum tíma hefur orðið mikil breyting þar á og í dag eru þær auðfáanlegar í flestum stórverslunum. Nokkrar verslanir hafa stillt lífrænt ræktuðu fæðunni sérstaklega fram eða hafa hann á sérmerktu svæði í verslunum sínum. Fjarðarkaup, Hagkaup og Nóatún eru allt verslanir sem selja lífrænt ræktaða fæðu og í hverri þeirra er rekin sérstök stefna í þessum málum.

"Fyrir einu og hálfi ári opnuðum við sérverslunina Fræið innan Fjarðarkaupa þar sem lífrænt ræktuð fæða og heilsuvörur eru seldar, " segir Sveinn Sigurbergsson, verslunarstjóri í Fjarðarkaupum. Hann segir eftirspurn eftir þessum vörum hafa aukist mikið og séu þeir fyrst og fremst að svara kalli viðskiptavinarins. "Við leggjum einnig ríka áherslu á að bjóða upp á fæðu fyrir fólk með ýmis fæðuofnæmi eins og glútenfrían mat og fleira," segir Sveinn.

Í Hagkaupum er einnig að finna afmarkað svæði með lífrænum vörum. "Við erum komin með á þriðja þúsund vörunúmer í lífrænum vörum og það er alltaf að aukast," segir Sigurður Reynaldsson, innkaupastjóri matvöru hjá Hagkaupum. "Þessi vöruflokkur hjá okkur hefur vaxið um 1000% frá árinu 2001 sem sýnir að þetta er það sem viðskiptavinurinn vill," segir Sigurður.

Í Nóatúni kveður við sama tón en þar hefur sala og eftirspurn á lífrænt ræktaðri fæðu verið að aukast. "Við erum farin að afmarka lífrænt ræktaða fæðu í verslunum okkar og mun fjölbreytni aukast í samræmi við eftirspurn," segir Eysteinn Helgason, framkvæmdastjói innkaupa í Nóatúni. "Við höfum fengið vörur frá okkar birgjum en erum einnig farnir að flytja inn vörur sjálfir eins og lífrænt ræktaðan ávaxtasafa," segir Eysteinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×