Sport

Dallas-Phoenix beint á Sýn í nótt

Það verður sannkallaður stórleikur á dagskrá Sýnar í nótt, þegar Dallas Mavericks og Phoenix Suns mætast í þriðja leik sínum í úrslitakeppni vesturdeildarinnar. Útsendingin hefst klukkan 1:30 eftir miðnætti og vökunótt framundan hjá öllum aðdáendum skemmtilegs körfubolta. Dallas náði öllum á óvart að sigra í leik tvö í Phoenix eftir stórtap í fyrsta leiknum og því má búast við hörkuslag í nótt, þegar liðin eigast við í Dallas. Liðin leika bæði körfuknattleik eins og hann gerist bestur, skora mikið og leika hraðan og skemmtilegan sóknarleik. Það er skarð fyrir skyldi í liði Phoenix, að þeir verða án Joe Johnson sem meiddist illa í síðasta leik, eftir að hann datt á andlitið eftir mikið samstuð og þurfti að fara í aðgerð. Eric Dampier, miðherji Dallas, fór mikinn í síðasta leik, eftir að félagi hans Dirk Nowitzki jós yfir hann skömmum í fjölmiðlum eftir slaka frammistöðu í fyrsta leiknum. Síðast en ekki síst verður forvitnilegt að fylgjast með viðbrögðum áhorfenda í Dallas þegar þeir fá nýkjörinn verðmætasta leikmann ársins í deildinni, Steve Nash í heimsókn á ný. Nash lék sem kunnugt er með Dallas í nokkur ár við góðan orðstír, en fékk tilboð frá Phoenix síðasta sumar, sem hann gat ekki hafnað. Áskrifendur Sýnar eiga því von á frábærum körfuboltaleik í nótt og við mælum með að allir aðdáendur góðs körfubolta helli sér upp á sterkt kaffi í kvöld og búi sig undir hágæða skemmtun í beinni útsendingu.
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×