Lífið

Eurovision 2005 - Dagur 5 - Selma klikkar ekki

Pjetur Sigurðsson skrifar
Íslenski hópurinn var fremur afslappaður í dag og hafði ekki sérstaklega mikið fyrir stafni, þó hluti af honum hafi þó verið að sinna skyldustörfum. Hópurinn fór í gærkvöldi á klúbb sem er um borði í skip á Dnepr ánni þar sem Norsku flytjendurnir tróðu upp, en þeir hafa vakið óskipta athygli fyrir flutning sinn og framkomu. Það er skemmst frá því að segja að Norðmennirnir heimtuðu að Selma kæmi á svið með þeim og tók hún Wild thing með þeim og voru viðtökurnar samkvæmt mínum heimildum stórkostlegar.

Hún Selma okkar klikkar ekki.

Einhver myndi segja að þetta væri nú sama eurovisionbullið í mér eins og þeim sem áður hafa fjallað um þessa keppni, en það er nú einu sinni svo að það hrósa allir Selmu og framgöngu hennar. Það er svo spurningin um þýðingu þess sem þessir menn segja, ég hef efasemdir um það.

Þetta Angelicu ævintýri tekur engan enda, en fyrir þá sem ekki vita þá er það söngkonan frá Hvíta Rússlandi, sem á rússneskan eiginmann, sem kemur svo í ljós að er frá Úkraínu. Þar er öllu tjaldað sem til er og það er nóg til því kallinn hennar er moldríkur.

Það nýjasta í því máli er að nú hefur hún fengið vinkonu sína, sem mjög vinsæla söngkonu frá Rússlandi og er gift framleiðanda Angelicu, til að koma til Kiev til að hjálpa til við að afla atkvæða og er búið að boða til móttöku á lestarstöðinni þar sem Angelica ætlar að taka á móti vinkonu sinn, sem í kaupbæti á brúðkaupsafmæli.

Það er allt notað. Það er vart þverfótað fyrir limmósíum merktum Angelica og ef heldur sem horfir þá fellur keppnin í skugga fyrir henni. Hún er að verða of stór fyrir þessa keppni. Þvílíkt rugl og ég minni enn á það að hún getur ekkert sungið.

Á morgun ætla ég að skoða borgina ásamt íslenska hópnum og annað kvöld ætla ég ásamt öllum öðrum að heilsa upp á borgarstjórann í Kiev og það er aldrei að vita nema að ég þiggi hjá honum einn kaldan.

Maður er nú allur að koma til í borgarlífinu hér. Eitt sem hefur vakið athygli mina og á nú svo sem ekki að koma manni á óvart, en maður tekur eftir og er eflaust arfleifð frá gömlum tímum, en það er raðamenningin og þolinmæðin sem heimamenn sýna í þeim. Við strætóstöðvar, í verslunum og á öðrum stöðum og aldrei vandamál. Leiðindakerlingin á kassanum í auglýsingunum frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, hún býr ekki í Kiev.

Samskipti mín við innfædda hafa verið með ágætum, en þau hafa verið í lágmarki vegna tungumálaörðugleika.  Þá virðist fólkið hér frekar lokað og þunglamalegt í samskiptum. Kannski er það vegna áratuga harðbýlis í eigin landi, en það er sama hversu maður t.d. kinkar kolli til dyravarða á keppnissvæðinu þá fær maður aldrei kink til baka. Furðulegt sem það nú er, ég þessi góðlegi maður, held ég.

Það er farið að kvölda í Kænugarði á þessum hvítaunnudegi sem þeir rétttrúnaðarmenn í þessu landi virðast ekki taka mjög alvarlega, en ég hef ekki komist að því af hverju svo er. Fáfræði mín í þessum málum er hér með viðurkennd, en hér er allt opið upp á gátt, verslanir, bankar og veitingastaðir svo fátt eitt er nefnt.

Það er rétt að hætta þessu hjali, nei bíðið hæg Selma var að ganga í salinn í blaðamannamiðstöðina og er strax kominn í viðtöl,  stúlkan sú.

Kveðja frá Kiev






Fleiri fréttir

Sjá meira


×