Sport

Dallas-Phoenix á Sýn í kvöld

Þeir sem hafa gaman að skemmtilegum körfubolta ættu ekki að missa af sjötta leik Dallas Mavericks og Phoenix Suns í undanúrslitum vesturdeildar um klukkan eitt eftir miðnætti í kvöld, en leikurinn verður í beinni útsendingu á Sýn. Viðureignir þessara liða hafa verið sannkallað augnkonfekt fram að þessu, því bæði lið leika sóknarleik eins og hann gerist bestur. Nýkjörinn verðmætasti leikmaður ársins í NBA, Steve Nash hjá Phoenix, hefur farið mikinn í síðustu tveimur leikjum liðanna og skoraði m.a. 34 stig, hirti 13 fráköst og átti 12 stoðsendingar í síðasta leik. Það var ekki síst vegna þess að það losnaði um hann vegna áherslu Dallas á að stöðva Amare Stoudemire, sem hafði farið illa með þá í fyrstu leikjum liðanna. Dirk Nowitzki náði sér ágætlega á strik í síðasta leik fyrir Dallas, en hann þarf að fara að hrista almennilega af sér slenið og reynast liði sínu sannur leiðtogi, ef þeir ætla ekki í sumarfrí í kvöld, því Phoenix nægir einn sigur í viðbót til að komast í úrslit vesturdeildarinnar. Sigurvegari í einvígi Dallas og Phoenix mun leika við San Antonio um sigur í vesturdeildinni, en í austurdeildinni er þegar ljóst að það verða Miami og Detroit sem berjast um sigurinn. Leikur Dallas og Phoenix er háður í Dallas og hefst bein útsending frá honum klukkan 01:00 í kvöld eins og áður sagði á bestu sjónvarpsstöð í heimi, Sýn.
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×