Sport

Detroit-Miami í beinni í kvöld

Það verður sannkallaður stórleikur í beinni útsendingu á Sýn á miðnætti í kvöld, þegar Detroit Pistons taka á móti Miami Heat í þriðja leiknum í úrslitum austurdeildar NBA.  Eftir tap á heimavelli í fyrsta leiknum, tók Flórídaliðið sig saman í andlitinu og sigraði í leik tvö, ekki síst vegna stórleiks Dwayne Wade, sem skoraði 40 stig. Enginn vafi leikur á því að frammistaða hins 23 ára gamla Wade er lykillinn að gengi Miami í einvíginu, því Shaquille O´Neal hefur ekki verið líkur sjálfum sér í leikjunum tveimur vegna erfiðra meiðsla. Pistons munu eflaust leggja mikið upp úr því að stöðva Wade í kvöld, en margir eru á því að ef hann nær að bera lið Miami á herðum sér í seríunni gegn einu sterkasta varnarliði deildarinnar, sé hann ekki lengur ungur og efnilegur, heldur einfaldlega orðinn einn besti leikmaður deildarinnar. Sigurinn í fyrsta leiknum var afar mikilvægur fyrir meistara Detroit, sem tryggðu sér þar með oddaleikinn í einvíginu. Þeim hefur verið að vaxa ásmegin eftir því sem liðið hefur á úrslitakeppnina og eins og áður sagði munu leikmenn Miami þurfa á öllu sínu að halda til að vinna í Detroit.
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×