Innlent

Bestu lögin koma á plötu

Sjónvarpið hefur falið fyrirtækinu BaseCamp að sjá um framkvæmd forkeppni Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva hér heima á næsta ári. Frestur til að skila inn lögum rennur út 18. næsta mánaðar, en skilyrði er að texti sé á íslensku, auk þess sem lagið má ekki vera lengra en þrjá mínútur. Rafn Rafnsson, framleiðslustjóri  BaseCamp,  sem stýrir fyrstu skrefunum í undirbúningi forkeppninnar, segir fyrirtækið hafa lýst áhuga sínum á að sjá um keppnina og í framhaldi af því hafi verið gengið til samninga um það. Áætlanir varðandi forkeppnina sem nú er unnið eftir gera ráð fyrir að dómnefnd velji 24 lög af þeim sem verða send inn til að taka þátt í forkeppni í sjónvarpi. "Þau keppa þrjú kvöld og komast fjögur áfram  í hvert sinn," segir hann og gerir ráð fyrir að valið verði í símakosningu. "Lögin 12 keppa svo á úrslitakvöldi og ræður þá aftur símakosning úrslitum." Þá segir Rafn koma til greina að halda millikeppni verði raunin sú að góð lög falli úr leik í "erfiðum riðli." Gert er ráð fyrir að keppnin verði haldin strax í byrjun næsta árs, en aðalkeppnin fer fram í maí. "Menn sáu marga kosti við að halda svona forkeppni, kannski ekki síst hversu mikil lyftistöng hún getur verið fyrir tónlistarlífið í landinu. Í framhaldinu verður svo gefin út plata með lögunum sem komust í úrslit," segir hann, en BaseCamp er í eigu Dags Group, sem einnig á útgáfufyrirtækið Senu (sem áður hét Skífan). >


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×