Fastir pennar

Draumur um Evru

Það hljóta að teljast nokkur tíðindi að íslenska krónan skuli hreyfa við gjaldmiðlum annarra þjóða. Fyrir aðeins örfáum árum hefðu spár um slíkt flokkast undir óra. Nú fylgjast gjaldeyriskaupmenn um víða veröld með íslenskum bönkum og efnahagslífi af sömu athygli og hann Árni okkar í Hólminum fylgist með áfengisneyslunni.

Og eins og Árna finnst þeim sumum heldur hratt gengið inn um gleðinnar dyr. Við skulum vona að atburðir liðinna daga séu einungis mildir timburmenn íslenska bankakerfisins og forystumenn þeirra hugi vel að þeim varnaðarorðum sem höfð hafa verið uppi. Miklu skiptir að bönkunum takist að halda trúverðugleika sínum á erlendum mörkuðum. Það er ýmislegt réttmætt í athugasemdum Fitch og Merrill Lynch og full ástæða til að taka tillit til þess. Jafnframt er ástæðulaust fyrir bankana okkar að hrökkva svo við, að allt gangi úr skaftinu. Árangur þeirra hefur verið mjög góður og vöxtur þeirra snar þáttur í almennri velmegun þjóðarinnar.

yrirtækin og fólkið í landinu hafa notið góðs af styrk þeirra og þúsundir hluthafa hafa grætt vel. Hér gildir því að lagfæra eins og hægt er það sem veldur áhyggjum en halda því sem vel hefur reynst í vexti bankanna. Svo sem ekki mikil speki en ágæt engu að síður.

Frá Indónesíu til Lómatjarnar

Breytingar á gengi krónunar virðast ekki einungis hafa haft áhrif á framandi staði og myntir með skrítin nöfn. Eitthvað gáraðist líka vatnið norður í landi á Lómatjörn. Okkar annars ágæti iðnaðarráðherra taldi að skoða bæri þann möguleika að kasta íslensku krónunni og taka upp evru án þess að ganga í ESB.

Forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa alfarið hafnað þessari hugmynd iðnaðarráðherra. Auðvitað var Valgerði ljóst að þessi yrðu viðbrögð sjálfstæðismanna, stefna Sjálfstæðisflokksins er mjög skýr í þessu máli. Þetta innlegg Valgerðar er nokkuð sérstakt og á væntanlega að lesast í samhengi við ræðu forsætisráðherra á Viðskiptaþingi nú á dögunum. Ég er ekki viss um að þetta ESB og evru daður nýtist vinum mínum í Framsókn til fylgisaukningar. Þvert á móti.

Bretar utan evru

Færð hafa verið fyrir því veigamikil rök að gangi Ísland í ESB muni aðild að evru og upptaka vaxtastefnu Seðlabanka Evrópu geta reynst okkur þungbær. Vissulega gæti sameiginleg mynt eitthvað haft áhrif í þá veru að færa hagsveifluna hér í átt að því sem gerist á evrusvæðinu. Óumdeilt er síðan að gengissveiflur gagnvart evru hyrfu. En það er langur vegur frá því að íslenska hagkerfið og evrusvæðið fari að sveiflast saman í slíkum takti að sameiginleg mynt og vextir séu fýsilegir. Misvægi þar á milli kann að hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðina og valda verulegum efnahagslegum vanda. Bretar hafa lengi rætt um upptöku evru. Þeir hafa sett sér ákveðin viðmið sem hagkerfi þeirra þarf að fullnægja til þess að hægt sé að hugleiða það af alvöru.

Munurinn á hagkerfi þeirra og meginlandsins er af mörgum talinn það mikill að ekki er heppilegt að búa við peningamálastefnu evrópska seðlabankans. Bretum finnst varhugavert að gefa frá sér stjórntæki peningamálastefnunnar. Mér finnst menn skauta stundum nokkuð létt framhjá þessari umræðu hér á landi. Gera lítið með það hvernig taka skuli á þeim vanda ef til dæmis illa gengur hjá okkur Íslendingum en vel í efnahagslífi meginlandsins. Þá verða vextir Evrópska seðlabankans háir, sem mun auka enn á þann vanda sem við væri að etja. Og hvernig væri hér umhorfs í 5% hagvexti með stýrivexti sem ætlaðir eru til að ná upp þreytulegum hagkerfum meginlandsins.

Svarti miðvikudagurinnBretar hafa ástæðu til að vera varkárir í þessum efnum. Þeir tóku þátt í myntsamstarfi sem nefnt var ERM. Áhugavert er fyrir þá sem nú hugleiða upptöku evru án aðildar að ESB að kynna sér þau rök sem notuð voru fyrir inngöngu Breta í myntsamstarfið. Í forsætisráðherratíð John Major neyddust Bretar til að segja sig úr samstarfinu. Þýski seðlabankinn neitaði að lækka vexti sína og þar með var Bretum ekki lengur vært innan ERM. Efnahagslega áfallið var gríðarlegt. En pólitíska áfallið sem breskir íhaldsmenn urðu fyrir var hroðalegt. Enn eru þeir að reyna að ávinna sér það traust sem þeir glötuðu daginn sem Bretar hrökkluðust út. Íslenska hagkerfið og það breska eru ekki eins. Evra án ESB er heldur ekki það sama og ERM, en það er ekki úr vegi að ráðherra bankamála íhugi þessa sögu.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×