Fastir pennar

Skynsamleg afstöðubreyting

Í annað sinn hefur ríkisstjórn Bandaríkjanna tilkynnt um brottför fjögurra orrustuflugvéla á Keflavíkurflugvelli og þyrlusveitarinnar. Fyrri ákvörðuninni var skotið á frest. Nú er ákvörðunin endanleg. En það sem máli skiptir er hitt, að ríkisstjórn Íslands bregst öðruvísi við að þessu sinni. Viðbrögðin í gær voru bæði yfirvegaðri og skynsamlegri en fyrir þremur árum. Þá átti að hætta varnarsamstarfinu, ef þoturnar færu, en nú á að halda viðræðum áfram í þeim tilgangi að finna ásættanlega lausn fyrir báða aðila.

Varnarsamstarfið við Bandaríkin á grundvelli Atlantshafssáttmálans hefur verið afar þýðingarmikið í meir en hálfa öld. Við fall Sovétríkjanna urðu grundvallarbreytingar á hernaðarstöðu Norður-Atlantshafsins og nauðsyn varnarviðbúnaðar. Þrátt fyrir þessar breytingar væri afar óskynsamlegt að beina málum í þann farveg að hér yrði enginn varnarviðbúnaður. Þrír stærstu stjórnmálaflokkarnir sýnast í öllum aðalatriðum vera sammála um þetta meginmarkmið og að halda áfram viðræðum við Bandaríkin til þess að freista þess að því verði náð.

Hótunin um að hætta varnarsamstarfinu, ef þoturnar yrðu kallaðar burt, var ekki ýkja vel rökstudd út frá varnarhagsmunum Íslands. Hafi henni verið ætlað að vera krókur á móti bragði í samningaviðræðum sýnist það hafa verið misheppnuð tilraun. Hún var einfaldlega ekki trúverðug. Ferill þessa máls vekur upp spurningar um hvort tekist hafi að byggja upp nægjanlega öfluga og trausta innlenda þekkingu á þessum málum í samræmi við þau markmið sem Geir Hallgrímsson setti þar um á sínum tíma. Efasemdir geta vaknað af þessu tilefni um þá ráðgjöf sem ríkisstjórnin hefur notið á þessu sviði.

Að vísu er það svo, að framkoma ríkisstjórnar Bandaríkjanna hefur í sjálfu sér gefið tilefni til ýktra viðbragða. Fyrri yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda má skoða og meta frá því sjónarhorni. En hvað sem líður fyrri viðbrögðum ríkisstjórnarinnar er skynsamlegt að halda viðræðum áfram. Rökin fyrir fjórum herþotum sem einu ásættanlegu lágmarkslausninni við ríkjandi aðstæður hafa aldrei verið sterk. Aðrir fullnægjandi kostir geta hugsanlega verið í stöðunni. Þó seint sé er rétt að halda áfram viðræðum á þeim grundvelli. Í öllu falli er það meginmál að varnarsamningurinn er gagnkvæmur og Bandaríkjamenn geta ekki einhliða hlaupið frá skuldbindingum sínum samkvæmt honum.

Þó að óraunhæft mat hafi verið lagt á samningsstöðuna hefur allur ferill þessa máls á undanförnum árum gefið þá ímynd að ríkisstjórn Bandaríkjanna hafi í ríkari mæli látið skammtíma eiginhagsmuni ráða för fremur en langtíma gagnkvæma hagsmuni gagnvart Íslendingum. Deigur stuðningur Bandaríkjastjórnar við Dani vegna Múhameðsteikninganna er af sama toga. Þó að slíkar staðreyndir blasi við breyta þær ekki þeim veruleika að gagnkvæmir hagsmunir eru enn fyrir hendi varðandi varnar- og öryggismál.

Þróunin í samskiptunum við Bandaríkin getur leitt til þess að leggja þurfi ríkari áherslu á samstarf við Evrópuþjóðir á þessu sviði, til dæmis um lofthelgieftirlit. En kjarni málsins er sá að Evrópuþjóðirnar eru ekki í færum til að halda uppi fullnægjandi vörnum einar og óstuddar. Framlag Bandaríkjanna er þeim enn nauðsynlegt. Í næstu framtíð er því ekki að sjá að Íslendingar nái samstarfi innan Evrópu um samstarf í varnar- og öryggismálum er mæti öllum þörfum okkar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×