Fastir pennar

Hnattvæðing - ekki sjálfgefin

Fyrir áttatíu og fimm árum eða svo var ort að risin væri elding þess tíma sem fáliðann virti. Heimslífið sjálft var tafl hins glöggeygða gests og gæfan ráðin ef leikið var rétt. Og hví skyldu Íslendingar, upp til hópa greindir og skemmtilegir, ekki eiga fullt erindi á það risaskákmót?

Árangurinn var reyndar glæsilegur. Á örfáum áratugum breyttist Ísland úr einu fátækasta ríki álfunnar í eitt það allra ríkasta í heimi. Alþjóðleg viðskipti lögðu grunninn að auðlegð Íslands, auðlindum og mannauð var komið í verð á erlendum mörkuðum og allt í einu áttum við góð hús, vegi, skóla, spítala og nú síðast flatskjái.

Það er því ekki skrítið að flestir Íslendingar líta hnattvæðingu viðskiptalífsins jákvæðum augum. Tækifærin eru alls staðar, hinn glöggeygði gestur þarf ekki að hafa stórþjóð sér að baki til að ná árangri. Lífskjarabyltingin undanfarinn áratug og hálfan er til vitnis um að séu aðstæður réttar í hagkerfinu nýti einstaklingarnir tækifærin sem gefast, bæði heima og heiman. Alþjóðavæðing viðskiptalífsins er okkur því mjög mikilvæg, hagsmunir okkar krefjast frjálsra viðskipta á sem flestum sviðum.

Mörgum er tamt að líta svo á að hnattvæðingin verði ekki stöðvuð, hún sé einhvers konar óstöðvandi lest, æðandi á beinu spori. Því miður geymir nýliðin saga lexíu um að ekki þarf allt að vera sem sýnist í þessum efnum. Við upphaf tuttugustu aldar voru heimsviðskiptin sem hlutfall af heimsframleiðslunni síst minni en nú er. Styrjaldir, kreppa og verndarstefna knésettu frjáls viðskipti á milli þjóða. Ég ætla ekki að fara að spá slíkri óáran, en það eru þó nokkur atriði sem vert er hugleiða þegar spáð er í hvað er framundan á þessum vettvangi.

Ójafnvægi milli hagkerfa heimsinsBandaríkin eru nú sem fyrr aflvaki heimsviðskiptanna. Hagkerfi þeirra er til dæmis sex sinnum stærra en hagkerfi Kína. Í þessu samhengi veldur það nokkrum áhyggjum hversu mikill viðskiptahalli Bandaríkjanna er nú orðinn. Reyndar er hallinn einn og sér ekki stórvægilegt vandamál. Svo lengi sem Bandaríkin laða að sér erlenda fjárfestingu og þeim tekst að fjármagna hallann þá gengur þetta upp. Vandinn kann að verða sá að þjóðir sem hingað til hafa sparað mjög mikið eins og Kínverjar muni byrja að auka neyslu sína og draga úr sparnaði. Kínversk stjórnvöld hafa nú þegar hleypt af stokkunum áætlunum sem miða að því að auka neyslu landsmanna. Gangi slíkt eftir og ef sama gerist í fleiri "sparnaðar" löndum eins og Þýskalandi, þá verður sú spurning áleitin hvernig Bandaríkin takast á við viðskiptahallann. Þjóðleg verndarstefnaAnnað sem veldur áhyggjum er að nú eru háværari raddir en áður sem tala fyrir einhvers konar þjóðlegri verndarstefnu í viðskiptalífinu. Í Bandaríkjunum hefur þessi umræða verið tengd meðal annars öryggissjónarmiðum. Nýsamþykkt bann við því að fyrirtæki frá Dubai ræki hafnarþjónustu og harðnandi tónn í garð kínverskra viðskiptahagsmuna eru dæmi um stefnumörkun sem er hnattvæðingu ekki í vil. Sama gildir um ýmsa evrópska stjórnmálamenn. Ótti við samruna fyrirtækja þvert á landamæri er til dæmis áberandi. Einnig kemur ekki á óvart hversu illa gengur að afla stuðnings við þjónustutilskipun ESB. Þar er um að ræða grundvallaratriði þegar kemur að viðskiptafrelsi milli landa ESB. Átök trúarbragðaTrúarbragðadeilur setja sífellt meiri svip á alþjóðastjórnmál. Skopmyndateikningarnar dönsku eru til dæmis birtingarmynd djúpstæðs ágreinings og ólíkrar lífssýnar mismunandi menningarsamfélaga. Ástandið í Mið-Austurlöndum er og verður um nánustu framtíð ótryggt og ekki vafi á að það mun hafa skaðleg áhrif á heimsviðskiptin. Stríðsrekstur hvers konar er alltaf vondur þótt stundum verði hann ekki umflúinn. Það er kvíðvænlegt ef þróun mála í Íran fer úr böndum og alþjóðasamfélagið neyðist til að grípa til hernaðaraðgerða til að koma í veg fyrir kjarnorkuvopnavæðingu landsins. Ef hernaður í Íran bætist við hernaðaraðgerðir í Afanistan og Írak er ekki von á því að það dragi úr spennunni á milli hins múslímska heims og hins vestræna í bráð. Aukin spenna fer ekki vel saman við friðsamlega verslun og viðskipti. KanarífuglinnAukning viðskipta milli þjóða er ekki sjálfgefin. Forsendur hnattvæðingarinnar eru þegar á allt er litið frekar viðkvæmar og margt sem getur stöðvað þá jákvæðu þróun sem hefur verið undanfarna áratugi. Frjáls verslun og viðskipti eru svona eins og kanarífuglinn í námunni - þegar þeim hnignar er voðinn vís.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×