Handbolti

Valsmenn eru stórhuga fyrir komandi leiktíð

Valsmenn eru brattir fyrir komandi vetur og ætla sér stóra hluti.
Valsmenn eru brattir fyrir komandi vetur og ætla sér stóra hluti. mynd/gva

Valsmenn boðuðu til mjög svo veglegs blaðamannafundar í húsakynnum Frjálsa fjárfestingabankans í gær þar sem farið var yfir stöðu mála, bæði hjá meistaraflokki karla og kvenna. Markmið Vals er mjög einfalt, sigur í öllum keppnum sem í boði eru.



Nýjasti leikmaður meistaraflokks karla var kynntur til sögunnar en það er Arnór Gunnarsson, sem gengur til liðs við Val frá Þór á Akureyri. Arnór, sem er hægri hornamaður, er unglingalandsliðsmaður og skoraði 172 mörk í DHL deildinni á síðustu leiktíð. Hjá konunum er nýjasti leikmaðurinn Hildigunnur Einarsdóttir sem lék með Fram á síðustu leiktíð og er ein efnilegasta handboltakona landsins og þá mun Brynja Steinsen mæta til leiks á ný eftir barnsburðarleyfi.



Einnig var það tilkynnt á fundinum að samningar hafa nú verið endurnýjaðir við u.þ.b. 30 leikmenn í meistaraflokkum félagsins en langflestir samningar þeirra eru til þriggja ára og ljóst er að Valsmenn ætla sér stóra hluti í handboltanum á Íslandi á næstu árum. Þá hefur Kristinn Guðmundsson verið ráðinn yfirþjálfari yngri flokka félagsins en Kristinn þjálfaði meistaraflokk ÍBV á síðustu leiktíð.



¿Við erum með mjög ungt og skemmtilegt lið og þetta er draumalið fyrir þjálfara að vinna með,¿ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari karlaliðs Vals. Óskar talaði um að Valur myndi mæta með sterkara lið til leiks nú heldur en í fyrra og bætti því við að breiddin í liðinu nú væri meiri. ¿Ég held að við séum með eitt skemmtilegasta lið sem Valur hefur stillt upp síðan Dagur og Óli og þeir komu á fjalirnar árið 1993,¿ sagði kokhraustur þjálfari karlaliðs Vals.

- dsd




Fleiri fréttir

Sjá meira


×