Fastir pennar

Vannýtt tækifæri í landbúnaði

Lífrænn landbúnaður hefur verið í stórsókn í hinum vestræna heimi um árabil. Þeir eru sífellt fleiri sem taka lífræn matvæli fram yfir önnur vegna þess að þau eru bæði heilnæmari vara og einnig hreinlega bragðbetri,

Í vikunni var kynnt skýrsla um lífræna framleiðslu á Íslandi, stöðu hennar og framtíðarmöguleika fyrir byggðaþróun á Íslandi. Skýrslan er unnin af starfshópi sem skipaður var fulltrúum Byggðastofnunar, Staðardagskrár 21 og Vottunarstofunnar Túns. Þetta er fyrsta meiri háttar úttekt sem gerð er á stöðu lífræns landbúnaðar á Íslandi. Í skýrslunni kemur fram að Íslendingar standi öðrum þjóðum talsvert langt að baki á þessu sviði og þar er meðal annars lýst helstu hindrunum og hvötum á vegi lífrænnar þróunar. Skýrslan ætti því að nýtast vel til stefnumótunar á þessu sviði en verulega hefur skort á að mótuð sé stefna og framtíðarsýn um lífrænan landbúnað hér á landi.

Á Íslandi er hlutfall vottaðs lífræns nytjalands 0,3 prósent en er um 4 prósent í löndum Evrópusambandsins og allt upp í 15 prósent í þeim löndum sem lengst eru komin. Leiðin að lífrænni ræktun er þó styttri hér á landi en mjög víða annars staðar vegna þess að hér á landi er notkun lyfja og eiturefna í venjulegum landbúnaði lítil. Auk þess eigum við mikið ónýtt og þar af leiðandi ómengað en þó gróið land þar sem nýta má villtar jurtir í þágu lífrænnar framleiðslu. Íslenskur landbúnaður á því mikil sóknarfæri í lífrænni framleiðslu.

Hingað til hafa íslenskir bændur fengið afar litla opinbera hvatningu til þess að þróa landbúnað í átt til lífrænnar ræktunar. Hins vegar hefur eftirspurn eftir lífrænum landbúnaðarvörum vaxið hér á landi eins og annars staðar. Margir bændur sem slíka vöru framleiða munu vart anna eftirspurn, sem er vissulega ánægjulegt og einnig vísbending um að markaður sé fyrir umfangsmeiri starfsemi á þessu sviði. Afar mikilvægt er að nýta sér reynslu þeirra bænda sem þegar stunda lífrænan landbúnað við uppbyggingu á lífrænni framleiðslu á Íslandi.

Sömuleiðis geta Íslendingar í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum nýtt sér reynslu sem þegar hefur myndast í nágrannalöndum. Í Noregi eru aðstæður til dæmis að mörgu leyti svipaðar og hér, bæði vegna þess að Norðmenn eru ekki í Evrópusambandinu og njóta því ekki þeirra styrkja sem bændur í aðildarlöndunum sambandsins njóta. Sömuleiðis eru aðstæður ekki ólíkar í nyrðri byggðum Noregs og á Íslandi.

Þróunin í íslenskum landbúnaði undanfarin ár hefur fremur verið í átt til iðnvæðingar en til lífrænnar framleiðslu. Mikilvægt er að hlúa einnig að þeim vaxtarbroddi sem felst í lífrænum landbúnaði vegna þess að á sama tíma og margir neytendur sækjast eftir að fá vörur á sem lægstu verði er líka talsverður hópur sem leggur meira upp úr gæðum og vill gjarnan borga aðeins meira fyrir lífræna vöru.

Líklega er lífrænn landbúnaður eitthvert mesta tækifæri til nýsköpunar sem finnst í sveitum landsins. Þessa sköpun þarf að ýta undir. Það er raunveruleg byggðastefna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×