Tónlist

Boðið upp á pitsu með sviðum

Sigurður Davíðsson Þarf að sjóða yfir hundrað kíló af sviðakjömmum á Sviðamessunni á Djúpavogi.
Sigurður Davíðsson Þarf að sjóða yfir hundrað kíló af sviðakjömmum á Sviðamessunni á Djúpavogi.

Æði sérstök hátíð verður haldin á Hótel Framtíð á Djúpavogi 28. október, svokölluð Sviðamessa. Messan hefur verið haldin frá árinu 1997 en þá koma saman bæjarbúar á öllum aldri auk aðkomufólks og gæðir sér á þessu séríslenska en ljúffenga mat.

„Síðan verða líka skemmtiatriði í kringum þetta,“ segir Sigurður Davíðsson, matreiðslumaður á Hótel Framtíð. „Það verður svona rokksýning enda mjög margir frambærilegir hljóðfæraleikarar hér í bænum sem ætla að spila rokk frá árinu 1940 til dagsins í dag,“ útskýrir Sigurður.

Yngsta kynslóðin er ekki þekkt fyrir að vera mikið fyrir þennan þjóðarrétt Íslendinga og segir Sigurður að hún þurfi engu að kvíða enda verður sérstakt pitsuhlaðborð í boði fyrir ungviðið. „Við höfum alltaf boðið upp á sérstaka sviða-pitsu en hún hefur reyndar ekki notið neinna gríðarlegra vinsælda,“ bætir Sigurður við og hlær

Matreiðslumaðurinn segir að í veislunni verði boðið upp áum hundrað kíló af sviðakjömmum en það gerir rúmlega sjötíu hausa sem mörgum þætti yfirdrifið nóg en Sigurður segir að allt hafi klárast í fyrra. „Það verða líka allir að smakka.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×